Ottó N. Þorláksson VE 5 kom til hafnar í Vestmannaeyjum í síðustu viku eftir gagngerar viðgerðir á vél og uppsetningu nýrra spila svo fátt eitt sé nefnt. Það er mörgum í fersku minni þegar bilun kom upp í skipinu rétt suður af Eyjum í apríl á þessu ári. Skipinu var haldið til veiða í síðustu viku og landaði í Eyjum í gær eftir sinn fyrsta túr eftir endurbæturnar.
Aðalvélin í Ottó N. bræddi úr sér þegar skipið var við veiðar í apríl síðastliðnum og áhöld voru uppi um það hvort borgaði sig að láta gera við þetta 41 árs gamla skip sem var smíðað hjá Stálvík í Garðabæ árið 1981 og hefur reynst farsælt aflaskip allt frá upphafi. Þó má geta þess að árið 2014 var skipið einnig í um tvo og hálfan mánuð frá veiðum vegna bilunar í aðalvél þegar HB Grandi gerði það út. Ísfélagið í Vestmannaeyjum keypti Ottó N. Þorláksson af HB Granda sumarið 2018.
„Ég reikna með að við byrjum hérna suður frá við Surtinn. Það eru ný rafdrifin togspil í honum frá Naust-Marine og það kemur með okkur fulltrúi frá framleiðanda til að fá þetta allt til að snúast,“ sagði Sigurður Konráðsson skipstjóra þegar Fiskifréttir ræddu við hann í síðustu viku.
Það stóð heima og haldið var í stuttan prufutúr og allt virkaði sem skyldi. Sérfræðingi frá Naust Marine var skutlað í land og haldið á veiðar.
![Sigurður Steinar Konráðsson, skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni.](http://vb.overcastcdn.com/images/119838.width-500.jpg)
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)
Karfakropp í Skerjadýpinu
„Við fórum út á föstudagskvöld vestur á Reykjanesgrunn og það var lítið að hafa þar svo við færðum okkur yfir í Skerjadýpið. Þar vorum við svo í brælu allan sunnudaginn. Síðan erum við búnir að vera í Skerjadýpinu í karfakroppi,“ segir Sigurður en áætlað var að landa tæpum 300 körum skömmu eftir hádegi í gær sem dugar í fjóra karfagáma.
Hann segir skipið í fínu lagi og nýju spilin hafi komið vel út. Stefnt var að því að halda til veiða á ný í kvöld, fimmtudagskvöld. Þá verður farið austur eða vestur fyrir land og þá verður áherslan lögð á að ná ufsa.
Tilbreyting að skipta milli veiða
Áhöfn Ottó N. hefur verið á Álsey alla síðustu loðnuvertíð og frá því í sumar við veiðar á makríl og síld. Sigurður segir að veiðar á makríl og svo síld hafi gengið alveg þokkalega. Þó hafi verið langt að sækja makrílinn og svo sem ekki stöðug veiði en þó komið hafi góðir dagar á milli. Mest voru þeir austur í Smugu en í restina fékkst líka afli innan íslensku lögsögunnar. Álsey hefur ekki verið á kolmunnaveiðum heldur hefur áhöfnin farið yfir á Ottó N. þegar makríl- og síldveiðum er lokið. Hin uppsjávarskip Ísfélagsins, Heimaey og Sigurður VE, hafa séð um veiðar á íslensku síldinni og kolmunnanum.
„Ég reikna ekki með því að við förum aftur yfir á Álsey og tökum þátt í loðnuveiði á komandi loðnuvertíð miðað við úthlutaðan kvóta. Þetta er lítill kvóti miðað við það sem var gefið út í fyrra. Annars er það mjög góð tilbreyting að skipta svona yfir á milli ólíkra veiða og áhöfnin kann því vel. Við erum auðvitað talsvert fleiri á Ottó en á Álsey. Þetta er eiginlega þannig að það eru tveir um eitt pláss á Álsey. Það eru fimmtán í áhöfn Ottós og fimm sem leysa af. En við erum 10 á Álsey,“ segir Sigurður.
Sigurður segir að Ottó N. sé vissulega farinn að reskjast en skipið sé gott. Það hafi verið fiskað mikið á skipið alla tíð. Þegar HB Grandi gerði út skipið var það mikið í stórveiðum á karfa. Það er enn farið á karfa en aldrei tekið mikið í einu og skipið aldrei fyllt af karfa. Sigurður segir að enginn markaður þoli það.
Samkvæmt tölum frá Fiskistofu, sem ná reyndar einungis aftur til ársins 2009, er botnfiskafli Ottós N. Þorlákssonar á síðustu þrettán árum samtals 87.251 tonn.
Mikilvægt að fá skipið aftur
„Vélin bilaði í byrjun apríl og það var ákveðið að gera við hana og fara um leið í ýmsar lagfæringar á skipinu. Við skiptum um togspil í leiðinni sem koma frá Naust Marine og það hittist svo vel á að þeir gátu afhent þau á sama tíma og við vorum að láta gera við vélina,” segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja.
Hann segir að þótt Ottó N. Þorláksson sé 41 árs gamalt skip hafi það verið metið svo að það væri ástæða til að fara í þessar framkvæmdir. Mun lengri tíma hefði að öllum líkindum tekið að leggja skipinu og bíða eftir nýju skipi. Lagst hafi verið yfir kostnaðinn við viðgerðirnar og niðurstöðurnar gefið til kynna að þetta væri heppilegasta leiðin.
![Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja.](http://vb.overcastcdn.com/images/117200.width-500.jpg)
Verið stopp frá því fyrir jól
Vélin er af gerðinni MaK sem nú er vörumerki í eigu Caterpillar. Stálsmiðjan-Framtak annaðist uppgerð á vél. Gerður var verksamningur í byrjun apríl um að verkið yrði klárað í október og Eyþór segir að allt hafi staðið eins og stafur á bók hvað það varðar. Ottó N. Þorláksson er því klár inn í nýtt kvótaár með til þess að gera nýja vél og ýmsan búnað annan.
„Loðnukvótinn er minni en við reiknuðum með að hann yrði og þess vegna er það enn mikilvægara nú að skipið sé tilbúið á veiðar. Í rauninni hefur skipið verið stopp frá því fyrir síðustu jól því áhöfnin hefur verið á Álseynni og var á henni á síðustu loðnuvertíð. Svo var hún slútta síldar- og makrílvertíðinni í þarsíðustu viku.”