Ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson RE kom til Reykjavíkur á sunnudag með fullfermi. Þetta var síðasta veiðiferð þessa mikla aflaskips fyrir HB Granda en í stað þess kemur nýsmíðin Viðey RE.
Ottó N. Þorláksson hefur verið farsælt aflaskip. Það var smíðað í Stálvík í Garðabæ árið 1981. Skipstjóri hefur verið Jóhannes Ellert Eiríksson en hann tók við togaranum fyrir 24 árum. Ottó N. Þorláksson er nú í slipp í Reykjavík þar sem nýir eigendur taka við honum í vikunni.
Viðey hefur eftir komuna frá Tyrklandi í desember sl. verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa unnið að uppsetningu nýs, sjálfvirks lestarkerfis, aðgerðaraðstöðu á millidekki og stillingu á ýmsum tölvubúnaði. Stefnt er að því að togarinn fari í reynslusiglingu fyrir sjómannadag og svo á veiðar í framhaldinu.