Ottó N. Þorláksson VE 5 kom til hafnar í Vestmannaeyjum í morgun eftir gagngerar lagfæringar á vél hjá Framtaki-Stálsmiðjunni. Vélin gaf sig þegar skipið var á veiðum rétt suður af Eyjum í byrjun apríl á þessu ári og það varð aflvana. Það hefur því verið frá veiðum í fimm og hálfan mánuð. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, segir að auk þess sem gert hafi verið við vélina hafi ný rafdrifin spil frá Naust-Marine verið sett í skipið og ýmislegt annað lagfært. Verið er að búa skipið á veiðar og má búast við því að það verði komið suður fyrir Eyjar innan tíðar í sínum fyrsta túr á yfirstandandi fiskveiðaári.