Lítil sem engin nýliðun, kaldari sjór og minni áta í hafinu er það sem einkennir þessa makrílvertíð, að mati Sigurðar Jónssonar, skipstjóra á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK. Sá makríll sem veiðist er nánast allur yfir 400 grömmum og nýtist síður til beitu en smærri makríll. Á sama tíma og bagalega gengur með veiðarnar hefur orðið 15-20% verðhækkun á frystum makríl.
Sigurður segir ganginn í veiðunum þó hafa verið framar vonum sé litið til hagsmuna Hrafns Sveinbjarnarsonar GK sem frystir allan aflann um borð. Það hafi líka munað miklu hve fá skip hafa verið að veiðum.
„Aðstæðurnar eru allt aðrar í hafinu en verið hefur. Sjórinn er tveimur gráðum kaldari en á sama tíma í fyrra og mun minna af átu. Við erum með krapavél sem tekur inn á sig sjó og þegar mest hefur verið undanfarin ár höfum við þurft að skipta um síur á klukkutíma til tveggja klukkutíma fresti því þær hafa stíflast út af átu. Núna höfðum við verið við veiðar í sautján daga og það hafði verið skipt um síur tvisvar sinnum,“ segir Sigurður.
Hann segir miklar breytingar í hafinu og þær megi meðal annars rekja til veðráttunnar suðvestanlands í sumar.
„Það hefur lítil sem engin áta verið í makrílnum núna enda lítið um átu í hafinu. Sá fiskur sem veiðist er árinu eldri og það virðist engin nýliðun vera. Í gegnum árin höfum við jafnan haft áhyggjur af því ef engin smáfiskur er í veiðunum. Við viljum sjá smáan fisk líka til þess að sannfærast um að nýliðun sé fyrir hendi. Það er ekki að gerast hvað varðar makrílinn. Við vorum áður alltaf að veiða makríl í stærðarflokknum 200-400 grömm. Makríll undir 400 grömmum hentar best í beitu og Þorbjörn hefur tekið 600-650 tonn af makríl í beitu fyrir línuskipin sín og þetta hefur komið einstaklega vel út. En núna er meðalvigtin 430-450 grömm. Það er sláandi munur á þessu milli ára. Menn eru því uggandi yfir þessu. Mér skilst líka að í makrílleiðangrinum sem Árni Friðriksson tók þátt í hafi verið minna af makríl sunnan- og vestanvert við landið en undanfarin ár,“ segir Sigurður.
Allt aðrar aðstæður
Hann kveðst fyrst hafa orðið var við breytingar á göngu makríls fyrir þremur til fjórum árum. Þá hafi mun fleiri skip af öllum stærðum verið gerð út á makrílveiðar. Uppsjávarskipin séu með 1.600-1.700 metra troll en Hrafn Sveinbjarnarson er með 1.000 metra troll. Þegar makrílgegndin var hvað mest hafi bátar með 400-500 metra troll fiskað vel. Fyrst gerðist það að litlu bátarnir hættu að fiska og nú séu aðstæður með allt öðrum hætti en þegar makrílveiðarnar stóðu sem hæst.
„Fyrir átta árum, eða á svipuðum tíma og makríllinn kom, þá gaus líka upp grálúðuveiði fyrir austan. Þetta var grálúða sem kom frá Noregi í ætisleit. Það sama á við grálúðuna fyrir austan og makrílinn. Hún kemur árinu eldri til Íslands en henni fylgir enginn smáfiskur. Maður spyr sig því hvað sé að gerast. Það gengur bara ákveðinn makríll hingað sem virðist bara koma eins og af gömlum vana en honum fylgir ekkert ungviði.“
Lægri sjávarhiti
Sjófrystur makríll hefur hækkað um 15-20% í verði frá því í fyrra. Frystitogarar Þorbjarnar eru einu skipin núna sem frysta um borð og hugsanlega skýrir það þessa verðhækkun auk þess sem varan hefur komið einstaklega vel út. Auk þess er minni áta í makrílnum en áður sem eykur gæðin. Skalinn yfir átu í makríl er á bilinu 1-5. Sigurður segir að átan í makrílnum hafi staðið í einum allan tímann.
Hvalir í átu
Þeir á Hrafni Sveinbjarnarsyni voru um tíma austan við Reykjanesgrunn og suður eftir landgrunnskantinum.
„Þar hef ég ekki áður séð jafn mikið af hval og hann er í átu. Um leið vissum við að við vorum líka í átu en þetta var einstaklega staðbundið. Þegar sjórinn var hvað hlýjastur var hann fjórtán gráður að sumri til. Núna þegar við byrjuðum á makrílveiðum í byrjun júlí var sjórinn 10,3-10,6 gráður. Þegar það kemur gott sumar hlýnar sjórinn strax. Þetta annálaða sumar 2018 hérna á suðvesturhorninu hefur greinilega áhrif á sjóinn og lífríkið. Það hefur líka verið talað um það makríllinn hafi verið eins og engisprettufaraldur og hreinsi sjóinn af átu. Vísindamenn kaupa þetta ekki. Þeir segja að lífmassinn sé svo gríðarlega mikill að eins uppsjávartegund getur ekki haft áhrif á hann. Hingað gengur síld, kolmunni og makríll og þessar tegundir eru aldrei í toppi á sama tíma og þær éta úr sama massanum. Það eru bara breytur í náttúrunni og við getum ekki gert excel-skjal yfir ástandið hverju sinni. En þegar það sést ekki lítill makríll í aflanum vakna upp spurningar. Við spyrjum okkur líka hvar ýsan haldi sig. Hvers vegna var ýsukvótinn aukinn um 30%? Við á togurunum sjáum ekki ýsuna. En kannski er hún inni á vogum og víkum. En við verðum að treysta Hafrannsóknastofnun og það er ekkert annað í boði,“ segir Sigurður.
Farið var seinna af stað í makrílinn á þessu sumri en undanfarin sem helgast ekki síst af veðrinu eins og það var í sumar. Engu að síður hefur náðst að frysta um 1.100 tonn af makríl á Hrafni Sveinbjarnarsyni.