Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir breytingar sem gerðar voru í sumar á lögum um veiðigjöld til hækkunar þeirra engin áhrif hafa á launaútreikninga sjómanna.
„Það er ekki þannig. Þetta getur náttúrlega haft áhrif til lækkunar á fiskverði ef þeir þrýsta á það, útgerðarmenn, en við höfum dálitla klemmu á þá í sambandi við nýja samninginn í botnfiskinum,“ segir Valmundur. Stuðst sé við ákveðið módel þar sem miðað sé við áttatíu prósent af markaðsverði.
Nógar varnir gegn verðlækkun
„Þeir sem landa hjá skyldum aðilum, sjálfum sér, mega taka fiskinn inn á verði sem er ákveðið í hverjum mánuði af úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þar erum við að vinna með meðaltal þriggja mánaða á undan. Svo er þetta afurðarverðstengt líka,“ segir Valmundur. Verð megi ekki vera lægra og alls konar þröskuldar hindri það.
„Verðið má ekki fara niður fyrir ákveðin mörk. Þannig að þeir geta ekki nýtt sér þetta til að lækka verð til sjálfra sín þegar þeir eru að kaupa af sjálfum sér. Það er ekki í boði eins og var hér áður fyrr. Eftir samningana 2017 var þetta kerfi tekið upp og það er búið að betrumbæta það síðan þá og nú er þetta orðið þannig að við teljum okkur vera með nógar varnir gegn því að þeir geti lækkað fiskverð eins og þeir vilja,“ segir Valmundur.
Til í að borga gegn hlut í hagnaði
Þannig segir formaðurinn að breytingin á veiðigjaldinu hafi engin áhrif á laun sjómanna. „Enda höfum við sagt og stöndum alveg á því að veiðigjöldin eru skattur á umframhagnað útgerðarinnar og það kemur okkur bara ekkert við. Við að vísu buðum þeim í síðustu samningum að borga veiðigjöldin með þeim ef við fengjum þá á móti hlut í hagnaðinum en það var ekki tekið vel í það. Þannig að það er algerlega á þeirra ábyrgð,“ segir Valmundur. Ef útgerðarmenn vilji breytingar þurfi þeir að segja upp samningnum sem gerður hafi verið til níu ára í fyrra og það geti þeir fyrst gert á árinu 2028.
Aðalkrafan var að allur fiskur væri verðlagður á markaði
Aðspurður segir Valmundur að útgerðin hafi ekki nefnt það núna að sjómenn taki á sig hluta af hinu hækkaða veiðigjaldi.
„En það var ein krafan þeirra í síðustu kjarasamningum að við borguðum hluta af veiðigjöldunum. Því var hafnað af okkur, nema með því að við fengjum þá hlut í hagnaðinum. Þeirra aðalkrafa var þessi og okkar aðalkrafa var að allur fiskur væri verðlagður á markaði. Við féllumst á að þetta kerfi yrði áfram eins og það er gegn því að þeir myndu falla frá kröfunni um að við myndum taka þátt í veiðigjaldinu. Og þannig er staðan hjá okkur núna. Þetta kemur okkur í raun ekkert við,“ ítrekar Valmundur.
Er ekki komið nóg af byggðaröskun?
Sjómenn hafa hins vegar að sögn Valmundar áhyggjur af mögulegum neikvæðum áhrifum breytinganna.
„Í okkar umsögn um veiðigjöldin hvöttum við til þess að það yrði skoðað ofan í kjölinn hvaða áhrif þetta hefði, til dæmis á byggðirnar. Við gengum í gegnum þetta þegar kvótakerfið var sett á og veiðiheimildir voru skornar niður. Þá náttúrlega var fullt af byggðum í kringum landið sem misstu frá sér veiðiheimildir. Svo eftir að leigan kom á eftir 1990, sem sagt kvótasalan, og menn fóru að veðsetja veiðiheimildir, þá var náttúrlega byggðaröskun hér. Og er ekki komið nóg af því?“ spyr Valmundur og nefnir Snæfellsnes sem dæmi.
Sjómönnum gæti fækkað
„Þar er engin stór, dóminerandi útgerð, eins og til dæmis á Akureyri, fyrir austan og í Vestmannaeyjum, heldur margar litlar og meðalstórar útgerðir. Ef þeir sjá að þeir munu ekki standa undir fjárfestingum næstu tíu árin með þessum veiðigjöldum og geti ekki endurnýjað skipin, vinnslurnar eða hvaðeina, þá bara selja þeir sig út úr þessu. Og hvert fer þá kvótinn? Verður hann eftir á Nesinu eða fer hann eitthvert annað?“ spyr Valmundur. Við þetta yrðu sjómenn alls ekki sáttir.
„Það verður enn þá meiri samþjöppun og enn þá meiri fækkun á sjómönnum. Þetta fer á miklu stærri skip sem þurfa minni mannskap. Við erum hræddir við það,“ segir formaður Sjómannasambands Íslands.