Neytendur í Suður-Kóreu óttast að sjávarfang frá Japan kunni að vera geislavirkt. Því hefur þriðja stærsta matvælakeðja landsins, Lotte Mart Co., ákveðið að kaupa makríl frá Noregi og ufsa frá Póllandi í stað þess að flytja þessar tegundir inn frá Japan.
,,Jafnvel þótt ufsi frá Japan hafi verið metinn örugg fæða þegar hann fór í gegnum tollinn eru viðskiptavinir okkar áhyggjufullir og því grípum við til þessa ráðs,” segir talsmaður matvælakeðjunnar. Aðrir stórmarkaðir hafa sett upp spjöld í verslunum sínum þar sem fullyrt er að varan sé ekki geislavirk. Sumir ætla að selja þá vöru sem þeir eru með í birgðum og bíða svo með frekari innflutning frá Japan.
Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Norska síldarsölusamtalsins. Þar segir ennfremur að Suður-Kórea sé sjötti stærsti kaupandi að norskum makríl með tæplega 13.000 tonn í fyrra. Japanir eru stærstir en þeir fluttu inn 76.000 tonn af makríl frá Noregi á síðasta ári. Mikið af þeim makríl sem endar í Japan er fyrst fluttur til Kína en þangað fóru 51.000 tonn af makríl á árinu 2010.
Suður-Kórea flutti inn 84.000 tonn af sjávarfangi í fyrra.