Veiðifélag Svalbarðsár var meðal þeirra sem fengu sérstaka heimild til þess að draga net fyrir hyli í sumar til að fjarlægja hnúðlaxa. Óttast hafði verið að hnúðlax myndi ganga í talsverðum mæli vegna þróunarinnar undanfarin ár eins og kom fram í Fiskifréttum.
Sumarið 2021 var gripið til þess ráðs af heimamönnum að draga fyrir hyl einn í neðri hluta Svalbarðsár þar sem sást til tuga hnúðlaxa. Ekki þurfti þó að grípa til ádráttarveiðinnar í sumar sem leið.
Engin torfa eins og 2021
„Fyrsti hnúðlaxinn veiddist strax 4. júlí í ósnum,“ segir Jónas Pétur Bóasson, formaður veiðifélagsins. Áfram hafi fundist hnúðlax í ánni um sumarið. „En það varð aldrei vart við svona stóra torfu eins og sumarið 2021.“

Jónas segir að alls níu hnúðlaxar hafi veiðst á stöng í sumar og því verið skráðir í veiðibókina. Einn af þeim hafi verið hálfdauður. Hnúðlaxar hafi einnig fundist dauðir og hálfdauðir í ánni í ágúst.
„Þeir hafa verið búnir að gera það sem þeir ætluðu að gera og drepist,“ segir Jónas. „Maður er skíthræddur um að þeir hafi náð að hrygna og að það verði þá meira eftir tvö ár þegar þessi hrygning skilar sér. Það er mjög hætt við því að mínu mati að vandamálið verði stærra og meira af hnúðlaxi eftir tvö ár.“
Fræðingar komi með svörin
Nú spyrja menn sig að því segir Jónas hvað sé til ráða. „Á að leggja áherslu á að vakta þetta betur og draga fyrir og reyna að ná þessu eftir tvö ár þegar þetta gusast inn? Fræðingarnir verða að segja til um það því að við landeigendur höfum svo sem ekki sérstaka þekkingu á því.“
Aðspurður segir Jónas að einnig hafi orðið vart við hnúðlaxa í sumar í öðrum laxveiðiám í Þistilfirði, til dæmis í Sandá sem er næsta á fyrir austan Svalbarðsá. Hefðbundin laxveiði í Svalbarðsá í sumar var 340 fiskar, sem er í rúmu meðallagi. „Veiðin var bara allt í lagi,“ segir formaður veiðifélagsins