Algjör umskipti hafa orðið á síðustu árum hvað varðar banaslys til sjós. Á árunum 1971-1990 fórust að meðaltali 25 sjómenn á ári við störf sín. Meðaltal áranna 1991-2010 er hins vegar rúm fjögur banaslys á sjó árlega.
Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda gerir þessa þróun að umtalsefni í grein í nýjustu Fiskifréttum.
Arthur segir m.a.:
,,Það er sjaldnar vitnað til þess að t.d. á árunum 1971-1974 fórust 185 íslenskir sjómenn við störf. Þar af 65 árið 1973. Þetta eru ofboðslegar tölur. Helst er hægt að líka þessu við mannfall í styrjöldum. Sem hlutfall af mannfjölda þjóðar er þessi blóðtaka þrisvar sinnum meiri en sú sem Bandaríkjamenn urðu fyrir á vígvellinum í Víetnam og sambærileg því hlutfalli bandarísku þjóðarinnar sem féll í fyrri heimstyrjöldinni. Á árunum 1971-74 var mun algengara en nú að karlmaðurinn á heimilinu væri fyrirvinnan. Það er varlega áætlað að þetta mannfall hafi verið ígildi þess að um 800 manna samfélag missi fyrirvinnurnar. Það er staður á borð við Grundarfjörð, svo dæmi sé tekið.”
Sjá nánar í Fiskifréttum.