,,Langtum minna af makríl í íslenskri lögsögu“ er yfirskrift fréttar á vef samtaka norskra útvegsmanna (fiskebat.no). Þar segir að alþjóðlegur rannsóknaleiðangur í apríl-júní í ár hafi leitt í ljós að mun minna hafi verið af makríl í íslenskri lögsögu en á sama tíma í fyrra.
Audun Maråk framkvæmdastjóri samtakanna bætir um betur og segir í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren í dag að lægri aflatölur íslenskra skipa fram til 1. júlí sem nemi 20.000 tonnum renni einnig stoðum undir það að minna sé af makríl við Ísland. Þetta þýði að tíminn vinni með Norðmönnum í deilunni og best sé að fara sér hægt í samningum.
Gallinn við þennan málflutning allan er sá að makrílrannsóknirnar í íslenskri lögsögu hófust ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt af stað í leiðangur. Þær mælingar sem Norðmennirnir vísa til voru síldarmælingar í maímánuði áður en makríllinn er genginn á Íslandsmið svo nokkru nemi. Þá hafa útvegsmenn sent skip sín seinna á makrílveiðar í ár en í fyrra í þeirri viðleitni að veiða makrílinn heldur þegar lengra er liðið á sumarið því þá er hann verðmætari.