Það er víðar en á Íslandi sem ótíð hefur tafið loðnuveiðar. Í Barentshafi hafa loðnuveiðar gengið hægt vegna veðurs. Þrátt fyrir að veiðarnar hafi byrjað fyrir allnokkru eru norsk loðnuskip ekki búin að veiða nema rúmlega þriðjung takmarkaðra aflaheimilda eða 25.000 tonn af 72.000 tonna kvóta. Í síðustu viku veiddust 10 þúsund tonn og fór langstærsti hluti aflans til manneldisvinnslu.
Reyndar hefur loðnan verið smá í vetur eða á bilinu 53-70 stykki í kílóinu og því hentað illa í manneldisvinnslu en nú er hún komin það ástand að vera hrognatæk og kynjahlutfallið hagstætt og því fer mestur hlutinn í hrognavinnslu. Í frétt á vef norsku síldarsölusamtakanna segir að búist sé við aukinni eftirspurn eftir loðnu til hrognatöku á næstunni því loðnuveiðar á Íslandi hafi gengið illa vegna veðurs.
Því má svo bæta við að norska fiskistofan hefur lokað hluta loðnumiðanna fyrir veiðum vegna innblöndunar þorsks í afla.