Fiskistofa hyggst leita eftir samstarfi við Samkeppnisstofnun og Skattinn en bíður eftir lagabreytingum. SFS segir engar vísbendingar um skaðleg áhrif samþjöppunar í sjávarútvegi.

Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra sendi Fiskistofu í síðustu viku „erindi og tilmæli um að efla eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.“

Sérstaklega lagði Svandís áherslu á að kannað verði „með markvissum hætti, yfirráð tengdra aðila og að Fiskistofa upplýsi ráðherra reglulega um niðurstöður sínar.“

Ennfremur hyggst Svandís fljótlega leggja fram á þingi frumvarp sem miðar að því að styrkja eftirlit Fiskistofu og ríkisstjórnin hefur samþykkt að frumvarpið yrði sent til Alþingis.

Fiskistofa birti í framhaldinu tilkynningu á vef sínum þar sem segir að hún muni „bregðast við tilmælum ráðherra með þeim úrræðum sem stofnunin býr yfir.“

Samstarf stofnana

Þar sem lagabreytingar hafa ekki náð fram að ganga mun Fiskistofa horfa til samstarfs við aðrar ríkistofnanir til að stuðla að bættu eftirlit með samþjöppun aflaheimilda."

Fiskistofa segir í tilkynningunni að eftirlit með samþjöppun aflaheimilda sé vandasamt, „einkum vegna óskýrra lagaákvæða og ófullnægjandi aðgangs að rauntíma upplýsingum um eignarhald og tengsl.“

Lagabreytingar hafi verið lagðar til, en þar sem þær hafa ekki náð fram að ganga muni Fiskistofa „horfa til samstarfs við aðrar ríkisstofnanir til að stuðla að bættu eftirliti með samþjöppun aflaheimilda.“

Að sögn Ögmundar Knútssonar er þarna helst átt við Samkeppnisstofnun og Skattinn.

Svandís tekur raunar undir þetta og segir stjórnvöld „verða að hafa yfirsýn yfir yfirráð tengdra aðila á aflaheimildum og markvisst eftirlit Fiskistofu er því mikilvægt. Skerpa þarf á þessu eftirliti en einnig þarf að gera breytingar á skilgreiningum á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða, þannig að skýrt sé hvenær tveir aðilar skuli teljast tengdir.”

Samkeppni erlendis

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, brást við þessu með grein á vef SFS þar sem hún sagði engar vísbendingar vera um skaðleg áhrif samþjöppunar. Auk þess segir hún að „eðlileg hagræðing hafi leyst úr læðingi mikil verðmæti um allt land.“

Ennfremur segir hún mikilvægt „að hafa hugfast að byggðafesta getur aldrei orðið sjálfstætt markmið þegar um sjálfbæra nýtingu fiskistofna er að ræða.“

Hún segir það „að vissu leyti sérstakt, út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, að setja skorður á útflutningsatvinnugrein. Íslenskur fiskur er seldur á erlendum mörkuðum og þar er samkeppnin hörð við risavaxin alþjóðleg fyrirtæki. Á lista frá árinu 2019 yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki í heimi, eru tvö íslensk.”

Auk þess sé samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi „hvergi nærri viðmiðum samkeppnisréttar sem gefa vísbendingu um að hún sé orðin skaðleg.“

Þriðja tilraun

Svandís vísar í tilmælum sínum til skýrslu starfshóps um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í desember 2018 um eftirlit fiskistofu.

Umrætt frumvarp var upphaflega lagt fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, forvera Svandísar, árið 2020 og síðan aftur árið 2021 en í hvorugt skiptið náði það fram að ganga á þingi. Svandís hyggst nú reyna í þriðja sinn, en með frumvarpinu á að bregðast við athugasemdum frá Ríkisendurskoðun og tillögum starfshóps ráðuneytisins um hvernig efla megi eftirlit Fiskistofu.

Lagt er til að heildstæðu viðurlagakerfi verði komið á fót, heimildir til rafræns eftirlits verði styrktar og hugtakið raunveruleg yfirráð verði afmarkað betur.