Við grásleppuveiðar fellur til mikið af grásleppuhvelju sem ekki hefur alltaf verið hægt að nýta þegar hrognin hafa verið tekin úr. Á líftæknisetrinu Biopol á Skagaströnd er nú verið að kanna hvort nýta megi þennan úrgang sem næringu handa smáþörungum af gerðini thraustochytrids.
Þessir smáþörungar eru, eins og fleiri örverur reyndar, þeirrar náttúru gæddir að þeir framleiða lýsi. En til þess að hægt verði að láta þá gera það í stórum stíl þarf fæðu handa þeim, og mikið af fæðu.
„Það eru miklir möguleikar í þessu því thraustochytrids eru ein af frumframleiðendum omega 3 olíu í hafinu,“ segir Jens Jakob Sigurðarson, efnaverkfræðingur hjá Biopol. „Núna er það svo að megnið af omega 3 olíu kemur úr fiskveiðum í hafi, og það getur kannski verið vandamál vegna þess að það er takmarkað magn af fiski í hafinu.“
Sleppa milliðum
„Þorskurinn býr ekki til þessar fitusýrur sjálfur heldur fær þær úr fæðu, þannig að við erum að fara svona 3-4 skref niður fæðukeðjuna, taka frumfamleiðandann og rækta hann í lokuðu kerfi,“ segir Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri.
„Af því þeir ljóstillífa ekki þá eru þeir ekki að nýta sólarljós til orkuöflunar, þannig að við þurfum að finna handa þeim orku til þess að fæða þá á, kolefni og sykur og fleira. Þetta er hálfpartinn eins og gerjun, bara eins og við værum að brugga bjór.“
Þeir Halldór og Jens Jakob segja allar líkur á því að hægt verð að framleiða lýsi í stórum stíl með því að nýta þessa smáþörunga. Helst hafi strandað á því að finna hentuga næringu handa þeim, og þar kemur grásleppan til sögunnar.
„Við höfum verið að fikta við að rækta þessa þörunga mjög lengi, og erum alltaf að læra og læra og reyna að hafa áhrif á við hvaða aðstæður þeir vaxa hraðast og best og framleiða sem mest af þessari fitu,“ segir Halldór.
„Nú þurfum við að finna eitthvert ódýrt hráefni sem nóg er af. Verkefnið snýr sem sagt að því að athuga hvort hægt sé að nota grásleppu sem fæðu fyrir þessi kvikyndi,“ segir Halldór.
Í stýrðu umhverfi
Biopol hefur um árabil stundað rannsóknir á þessari tegund smáþörung, sem Halldór kallar gjarnan Thrausta til að sleppa við latínulanglokuna. Þá hefur Biopol einnig um árabil stundað rannsóknir á grásleppu, þannig að það liggur nokkuð beint við að prófa að tengja þetta tvennt saman.
Halldór segir að með því að sleppa milliðunum í fæðukeðjunni verði hægt að stýra því miklu betur hvers konar afurð kemur út úr framleiðslunni. Jens tekur undir þetta:
„Með þessum hætti getum við framleitt omega 3 olíu í stýrðu umhverfi á sjálfbæran hátt, þar sem stýrum því nákvæmlega hvað fer inn í ferlið og um leið hvað við fáum út úr því.“
„Þú getur rétt ímyndað þér,“ bætir Halldór við, „hvernig þetta yrði ef það væri hægt að framleiða lýsi með sjálfbærum hætti, sem þarf ekki að hreinsa. Það þarf að hreinsa þungmálma úr lifur og fiski en með þessu losnum við við það. Það er heldur ekkert lýsisbragð af þessu og engin lýsislykt.“
Síðastliðið haust hlaut BioPol tæplega 11 milljón króna styrk til verkefnisins SOUL, eða Sustainable Omega 3 oil from Underutilized Lumpfish. Þá var einnig veittur styrkur úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til tengds verkefnis.