Línuskipið Örvar SH kom til nýrrar heimahafnar á Patreksfirði um síðustu helgi en gengið var frá samkomulagi um kaupin milli Odda hf. á Patreksfirði og Hraðfrystihúss Hellissands síðasta sumar.

Oddi hefur gert út línuskipin Núp BA 69 og Patrek BA 64 en fyrrnefnda skipinu hefur verið lagt og það sett á sölu. Patrekur hefur undanfarin tvö ár verður gerður út á dragnót. „Nýja“ skipið Örvar fær heitið Núpur BA.

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda, segir að Núpur sé kominn á söluskrá en menn horfi mikið í ártöl þegar skip eru til sölu og Núpur var smíðaður í Póllandi 1976. Hann var lengdur 1998 og mikið endurnýjaður 2002, m.a. með nýrri brú og vél. Skipinu hefur verið vel við haldið og það er gott línu- og netaskip.

Smíðaður í Noregi 1992

Nýr Núpur er smíðaður 1992 í Noregi og er svipaður að lengd og sá eldri en mun hærra og breiðara. Hann hét Tjaldur áður en hann komst í eigu Hraðfrystihúss Hellissands. „Skipinu hefur verið vel við haldið og ótrúlegt hvað það lítur vel út. Það er fullbúið til veiða og þarf ekki annað en rúmfötin um borð og leggja af stað. Menn eru komnir í jólafrí núna en haldið verður í fyrsta túrinn 2. janúar,“ segir Skjöldur.

Hann segir kvótann í sjálfu sér alltof lítinn og hann dugi ekki til að hægt sé reka skipin á fullum afköstum. Það breytist þó vonandi fyrr en síðar með auknum kvótum.

Oddi vinnur jafnt ferskan fisk, saltfisk og frystan fisk en stærsti hlutinn fer í ferska hnakka, flök og flakabita. Markaðir fyrir ferskfiskinn séu ágætir en þó breyst í það að verða meira kaupendamarkaður en seljendamarkaður.