„Það er skylda okkar sem stjórnenda að hafa hagsmuni starfsmanna okkar í huga og spyrna við fótum þegar að þeim er sótt og störfum þeirra. Fyrning er ekkert annað en tilflutningur á fjármunum frá fyrirtækjum og starfsmönnum og mun óhjákvæmilega hafa áhrif á vinnuumhverfi okkar," sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, m.a. í ræðu sem hann flutti á árshátíð fyrirtækisins á laugardag.
Í ræðu sinni kom Þorsteinn m.a. inn á umræðuna um sjávarútveginn undanfarna mánuði og sagði hana hafa keyrt um þverbak. Hann sagði stjórnmálamenn ráðast að eigendum jafnt sem starfsmönnum. „Óhjákvæmileg viðbrögð okkar vegna aðgerða stjórnvalda birtast meðal annars í sumarlokuninni á Dalvík, þeirri lengstu í sögu Samherja," sagði Þorsteinn.
Hann sagði fast sótt að félaginu úr ýmsum áttum. „Við erum einfaldlega í allt öðru umhverfi hér en í öðrum löndum þar sem við störfum. Í þeim löndum standa stjórnvöld með okkur í að treysta atvinnu og auka verðmæti - þau vinna með okkur en ekki á móti. Nú er svo komið að mælirinn er fullur. Við stjórnendurnir munum verjast - við munum verja hagsmuni okkar allra sem störfum hjá Samherja. Við munum láta í okkur heyra á annan hátt hér á landi en áður. Við erum þegar byrjuð, og munum halda áfram að kynna fyrirtækið á opnum fundum. Viðbrögð þeirra, sem að aðförinni standa, er að saka okkur um að blanda okkur í pólitík. Menn geta kallað þetta pólitík en ég segi á móti að þetta er atvinnupólitík - og við munum blanda okkur óhikað í hana, hvar og hvenær sem er."