Vestmannaey VE hefur undanfarin misseri stundað veiðar með sérhönnuðu trolli sem skilur þorskinn frá. Það kemur sér vel við ýsuveiðar þegar takmarka þarf meðafla í þorski, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Í trollinu er þorskskilja eða milliþil sem liggur þversum og nær frá trollopi og aftur í pokann og skiptir honum einnig í tvennt. Ýsan leitar oftast inn í trollið um efra opið, þ.e. frá milliþili upp í efra byrðið. Þorskurinn er botnlægari og fer gjarnan inn um neðra op trollsins. Ef menn vilja ekki fá of mikinn þorsk sem meðafla er neðri pokinn hafður opinn og þorskurinn syndir þar út. Talið er að um og yfir 50% af þeim þorski sem kemur inn í vörpuna skiljist frá og fari út um neðri pokann þegar hann er opinn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.