Grænlendingar hafa bundið vonir við að þorskstofninn við Grænland muni eflast verulega með hlýnun sjávar en sá bati hefur látið á sér standa. Fiskifræðingar leggja áfram til að bein sókn í þorsk verði bönnuð til þess að stuðla að enduruppbyggingu stofnsins.
Stjórnvöld í Grænlandi hafa hins vegar ákveðið að ganga gegn ráðum fiskifræðinga og leyfa 10.000 tonna þorskveiði innan skerja og 5.000 tonna veiði utan skerja sem er sama kvótasetning og í fyrra. Þetta er sagt gert með tilliti til samfélagslegra þarfa.
Þorskveiði við Grænland nam samtals 13.000 tonnum árið 2009, 25.000 tonnum árið 2008 og 17.000 tonnum árið 2007.
Að sögn fiskifræðinga bendir allt til þess að magn þorsks á miðunum við Grænland sé lítið samanborið við tímabilið fyrir 1990. Frá árinu 2005 hefur sá hluti þorskstofnsins sem heldur sig utan skerja sýnt merki um bata sem að hluta er rakið til 2003 árgangsins. Árgangarnir sem á eftir komu eru hins vegar metnir lélegir.
Í skýrslu á vef Náttúrustofnunar Grænlands segir ennfremur að þéttir hópar hrygningarþorsks hafi sést á smáum svæðum utan við Austur-Grænland á árunum 2007 og 2009. Þetta bendi til þess að grænlenski hrygningarstofninn sé í uppbyggingu.