Þótt ekki séu miklar líkur á því að menn hreppi fyrsta vinninginn í lottó, eða aðeins 1 á móti 5,4 milljónum, er það samt ekkert á móti þeim lélegu möguleikum sem þorskseiði eiga til að komast á legg.
Þessar upplýsingar koma fram á vef norskra útvegsmanna og er þar vitnað til vísindamanna norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þar segir ennfremur að það sé næstum fimm sinnum minni líkur á að þorskseiði lifi heldur en að menn fái stóra vinninginn í lóttó. Möguleikinn á því að þorskurinn lifi er ekki meira en einn á móti 25 milljónum. Hættan á því að þorskurinn drepist er sérstaklega mikil á fyrstu vikum og mánuðum í lífi hans.
Til að vega upp á móti svo litlum lífslíkum þarf gríðarlega mikinn fjölda hrogna. Hver stór hrygna getur hrygnt um fimm milljónum hrogna hvert ár. Á tíu ára tímabili getur hún því hryngt 50 milljón hrognum. Það er nóg að aðeins tvö af þessum hrognum skili af sér fullvöxnum þorski til að halda stofninum í jafnvægi að öðru óbreyttu.