Fiskeldisfyrirtækið Ondartxo Arraika í Baskalandi á Norður-Spáni hefur tekið í notkun nýja eldisstöð fyrir þorsk, sandhverfu og flundru og er vatnið í stöðinni endurnýtt í lokuðu kerfi.

Hér er um tilraunaverkefni að ræða í samvinnu við spænska rannsóknastofnun og styrkt af ráðuneyti umhverfis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í Baskalandi, sem veitti jafnvirði 270 milljóna íslenskra króna til verkefnisins.

Í frétt um málið segir að lokað vatnskerfi af þessu tagi sé algengt í framleiðslu á kola- og sandhverfuseiðum en sjálft eldið á fiskinum farið víðast hvar fram í opnu vatnskerfi. Tekið er fram að nú um stundir sé þorskeldi í Evrópu aðeins stundað í fjórum löndum, Noregi, Íslandi, Írlandi og Bretlandi og þá í sjókvíum í fjörðum en ekki í lokuðum vatnskerfum uppi á landi.

Með þessari tilraun sé ætlunin að rannsaka til hlítar fiskeldi frá upphafi til enda í lokuðu vatnskerfi, bæði út frá líffræðilegum þáttum og eins út frá arðsemi.