Heildarfiskaflinn í marsmánuði nam 114 þúsund tonnum samanborið við 169.000 tonn í sama mánuði í fyrra og orsakaðist samdrátturinn af loðnuveiðibanninu. Töluverð aukning varð hins vegar í botnfiskafla í marsmánuði á milli ára en hann fór úr 56 þús. tonnum í 63 þús. tonn. Mestu munar um aukningu í þorski, en þorskaflinn varð 25.500 tonn nú á móti 20.900 tonnum tonn í mars í fyrra. Rétt er þó að nefna að páskarnir voru í mars í fyrra en í apríl í ár.
Sjö fyrstu mánuði fiskveiðiársins er búið að veiða 105 þús. tonn af þorski sem eru rúm 64% af leyfilegum heildarafla fiskveiðiársins. Ýsuaflinn í mars var 11.500 tonn og er heildaraflinn nú 57 þús. tonn eða 61% af leyfilegum heildarafla á ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári.
Uppsjávaraflinn í mars 2009 var 45 þús. tonn en var 113 þús. tonn á sama tíma í fyrra. Mestu munar um það að engin loðna veiddist núna en í mars í fyrra var tæplega 96 þús. tonnum landað. Hins vegar var kolmunnaaflinn núna 39 þús. tonn en var 17 þús. tonn í mars í fyrra. 536 tonnum af sumargotssíld var landað og er búið að nýta kvóta ársins að fullu. Tæplega 5.500 tonnum af gulldeplu var landað í mars, engri í mars í fyrra.
Frekari upplýsingar um aflann í janúar og stöðu aflaheimilda eru á vef Fiskistofu, HÉR