Örplast finnst í kræklingum nánast alls staðar hér við land, hvort heldur sem þeir eru í nálægð við byggð eða fjarri miklum mannaferðum.

Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, greindi frá þessu á ráðstefnunni Lagarlíf sem haldin var í lok október. Hann ræddi þar um tvær rannsóknir setursins á örplasti í kræklingum.

Fyrri rannsóknin, sem unnin var að beiðni Umhverfisstofnunar, fór þannig fram að fjörukræklingi var safnað á sex stöðum við vestanvert landið: Við Ósabotna á Reykjanesi, við Hvassahraun, við Geldinganes í Reykjavík, í Hvammsvík í Hvalfirði, við Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi og í Skötufirði við Ísafjarðardjúp.

Hugmyndin var að kanna hvort örplast fyndist í kræklingi við Ísland og hvort munur væri á því hve mikið örplast væri í kræklingunum eftir því hvort þeir voru nálægt þéttbýli, eins og við Geldinganes, eða á tiltölulega ósnortnu svæði eins og í Skötufirði.

„Það sem er athyglisverðast er að það var ekki marktækur munur á milli staða. Það skipti engu máli hvort þeir voru nálægt borginni eða í Skötufirði, þannig að samkvæmt þessu er plastið jafndreift í sjónum óháð því hvort einhver uppspretta er nálægt.“

Teknir voru 20 til 30 kræklingar á hverjum stað. Niðurstaðan varð sú að 40 til 55% kræklinganna innihéldu plast, allt upp í fjórar agnir hver en að meðaltali voru 0,63 agnir í hverjum kræklingi. Mest voru það þræðir og meðallengd þeirra var 1,1 mm.

Enn nánast á byrjunarreit

Halldór sagði reyndar rannsóknir á örplasti í sjó og sjávarfangi enn vera nánast á byrjunarreit. Ekki séu mörg ár frá því slíkar rannsóknir hófust af einhverri alvöru, og enn sé verið að finna út úr því hvernig best verði að þeim staðið.

„Við erum í rauninni ennþá á þeim stað að reyna að staðla aðferðir til þess að rannsaka plastið, þótt við höfum talað um örplast og plastmengun í nokkur ár. Þetta á við um öll stig aðferðarinnar, sýnatökur og hvernig maður greinir plastið og hvaða lífverur eru hentugar til að vakta örplast í lífríkinu. Við erum bara á byrjunarreit.“

Kræklingur hafi þótt hentugur til þess að kanna þetta, enda finnst hann mjög víða og hefur verið mikið notaður við annars konar mengunarvöktun. Á hinn bóginn sé nú komið í ljós að hann sé „góður að losa sig við plastið líka, þannig að hversu góður mælikvarði er það þá á plastmengun í sjó?“ Þess vegna sé nú verið að skoða önnur skeldýr líka.

Í framhaldi af fyrrgreindri rannsókn var gerð önnur rannsókn á Reykjanesi þar sem kannað var hve mikið örplast var í kræklingi, beitukóngi og glærmöttli á nokkrum stöðum en Uppbyggingarsjóður Suðurnesja fjármagnaði það verkefni. Tekinn var línukræklingur í Vogunum, bæði smár og stór, og kræklingur af flotbryggju í Sandgerðishöfn. Einnig var tekinn glærmöttull af sömu flotbryggju og svo beitukóngur sem veiddur var af botni í gildrur við Vatnsleysuströnd.

Um 80% af beitukónginum var með eitthvað plast og rúmlega 60% af bæði kræklingnum og glærmöttlinum á flotbryggjunni. Minnst reyndist vera af örplasti í ræktaða línukræklingnum, eða um 20% í þeim smáa en vel innan við 10% í þeim stóra. Athyglisverðast við þessar niðurstöður er að magn örplasts virðist mest í beitukóngi sem er rándýr á botni, næst mest í kræklingi og glærmöttli (sem síar sjóinn líkt og kræklingurinn) rétt undir yfirborði sjávar og áberandi minnst í línukræklingi í uppsjó eða um 10 metra frá botni.

Plastmengað ryk

Halldór segir það ekkert undarlegt þótt fólki bregði þegar fréttist af því að plastþræðir eða agnir finnist í sjávarfangi, fiskflökum, kræklingi eða öðru. Margir strengi þess jafnvel heit að borða aldrei krækling aftur. Hins vegar bendir hann á rannsókn sem gerð var í Skotlandi fyrir fáum árum. Þar voru taldar plastagnir í kræklingi sem fólk eldar heima hjá sér, en jafnframt skoðað sérstaklega hve mikið af þessum ögnum voru fyrir í kræklingnum og hve mikið af slíkum ögnum fólk innbyrðir úr lofti á meðan matseld stendur og þegar setið er við matarborðið.

Í ljós kom að margfalt meira plast getur borist í menn við matseldina og matarborðið, einfaldlega úr ryki sem er á sveimi í loftinu á heimilinu, miðað við plastið sem upphaflega var að finna í kræklingnum.

„Það er hugsunarvilla í þessu stundum, finnst mér,“ segir Halldór um umræðuna í tengslum við örplast í sjávarfangi. „Það er oft mikið gert úr þessu þegar verið er að mæla þetta í fiskflökum eða kræklingum. En örplastið er alls staðar og við fáum þetta í okkur hvort sem er og örugglega í meira magni en úr sjávarfangi. Það þarf einfaldlega að setja þetta í rétt samhengi og alls ekki gott ef fólk forðast sjávarfang af þessum sökum.“

Niðurlagsorð skosku rannsóknarinnar eru á þá leið að áhyggjur fólks af því að innbyrða örplast þegar skelfiskur er snæddur þurfi að setja í víðara samhengi vegna þess að magn örplasts sem geti borist í fólk úr skelfisknum sé sáralítið í samanburði við það sem berst hvort eð er í fólk úr heimilisrykinu.