Slysavarnafélagið Landsbjörg og Origo hafa gert samstarfssamning þar sem Origo gerist aðalstyrktaraðili Landsbjargar.

Yfirskrift samstarfsins er „Finnum leiðina: Samstarf okkar skapar öryggi“.

Hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg þarf rétta þjálfun, öflugar forvarnir og rétt viðbragð við hvers konar vá. Þetta á ekki síður við í hinum stafræna heimi. Ný og stafræn tækni hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms í björgunaraðgerðum og þar nýtist þekking Origo afar vel í samstarfinu.

Öryggi í fyrirrúmi

„Við erum stolt af því að fá að styðja við það göfuga starf sem Landsbjörg vinnur. Origo og Landsbjörg eiga það sameiginlegt að þurfa reglulega að leysa verkefni af ýmsum stærðum og gerðum“, segir Jón Björnsson, forstjóri Origo. „Öryggi er alltaf í fyrirrúmi hjá báðum aðilum. Við viljum vera í framvarðasveit þeirra þjónustuaðila á íslenskum markaði sem bæði stuðla að öruggu rekstrarumhverfi og veita viðbragð ef netárás eða öryggisbrestur verður.“

Jón Björnsson, forstjóri Origo, og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Sysavarnafélagsins Landsbjörg.
Jón Björnsson, forstjóri Origo, og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Sysavarnafélagsins Landsbjörg.

Til að heiðra samstarfið þá hefur Origo afhjúpað íslenskt neyðarskýli í höfuðstöðvum sínum í Borgartúni. Þetta er raunverulegt neyðarskýli sem var lengi notað á hálendi Íslands. Skýlið veitir starfsfólki reglulega áminningu um mikilvægi öryggis í tækni og hugbúnaðargerð, jafn sem fjallamennsku.

„Sjálfboðaliðastarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar stendur og fellur með stuðningi þjóðarinnar. Það er því afar ánægjulegt þegar stór og öflug fyrirtæki eins og Origo viðurkenni mikilvægi þessa starfs og stígi það stóra skref að styðja myndarlega við sjálfboðaliða okkar,“ segir Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjörg.