Það óhapp varð í rússnesku lögsögunni í Barentshafi í nótt að bilun varð á skrúfubúnaði frystitogarans Örfiriseyjar RE - skipi HB Granda. Skipið getur ekki siglt fyrir eigin vélarafli og því verður það dregið til Noregs.
í frétt á heimasíðu HB Granda segir að óhappið hafi orðið um klukkan tvö í nótt. Gott veður er á svæðinu og engin hætta talin á ferðum. Að höfðu samráði við tryggingarfélag skipsins náðist samkomulagi um að olíuskipið M/T Norsel taki Örfirisey dragi skipið til hafnar í Noregi. Þar verður tjónið metið og ákveðið hvar viðgerð fari fram.
Norsel kom að Örfirisey um klukkan 14:30 í dag. Frá þeim stað til hafnar í Noregi eru um 440 sjómílur og munu því skipin væntanlega ekki koma til hafnar fyrr en eftir þrjá til fjóra sólarhringa.