HB Grandi greinir frá því á vef sínum að frystitogarinn Örfirisey RE sé farinn aftur til veiða eftir stutt viðgerðarhlé í Tromsö í Norður-Noregi. Togarinn kom þangað sl. mánudag eftir að bilun varð í aðalvél þar sem skipið var að veiðum í norskri lögsögu í Barentshafi.
Haft er eftir Herbert Bjarnasyni, tæknistjóra skipa hjá HB Granda, að viðgerð hafi lokið í gær. Vélin hafi verið ræst og prófuð í nótt og virkað fullkomlega.
„Viðgerðin var framkvæmd af fulltrúa vélaframleiðanda í Noregi með aðstoð frá vélaverkstæði í Tromsö. Bilunin reyndist vera í svokölluðum tímagír sem sér um að stilla af tíma milli knastáss og kambáss í vélinni. Legur í tveimur millitannhjólum bræddu úr sér þegar smurolíurör, sem sá um að flytja smurolíu að tannhjólunum, gaf sig. Það þurfti því að skipta út legum, öxlum og tannhjólum,“ segir Herbert.