Veiðigjöld hafa verið umdeild hér á landi frá upphafi. Þau hafa verið innheimt í meira en áratug og skilað tugum milljarða í ríkissjóð.

„Mér finnast hugmyndir manna um umfang rentu í sjávarútvegi á Íslandi oft vera skringilega bjartsýnar,“ segir Daði Már Kristófersson prófessor. „Það þarf ekki annað en að skoða hagtölur til að átta sig á að veiðigjöld verða aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkið. Þau leysa aldrei af hólmi til dæmis tekjuskatta. Og þetta hefur pínulítið litað umræðuna, menn hafa séð að einhverju leyti töluverðum ofsjónum yfir hagnaði í sjávarútvegi.“

Daði Már er auðlindahagfræðingur og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann er jafnframt ráðgjafi nefndar sem tók til starfa í vor og á að móta nýjar tillögur um fyrirkomulag auðlindagjalds. Núgildandi lög renna nefnilega úr gildi í lok næsta árs og nefndin á að skila tillögum fyrir 1. desember næstkomandi. Formaður hennar er Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra.

Auðlindagjald hefur verið innheimt af útgerðarfyrirtækjum hér á landi allt frá árinu 2004 og og það gjald var síðan hækkað verulega árið 2012. Útreikningarnir að baki eru harla flóknir en hugmyndin er sú „að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar,“ eins og það er orðað í lögum um veiðigjald frá 2012.

Daði Már segir það vissulega snúið verkefni að meta umfang auðlindarentu sjávarútvegsins.

„Við getum sagt að það sé bæði erfitt að átta sig á hvað er eðlileg upphæð en svo eru líka mjög skiptar skoðanir um aðferðir við gjaldtökuna. Það eru sumir sem halda því fram að þetta ætti frekar að vera á formi sérstaks tekjuskatts. Það er ein leið sem ég veit að fjármálaráðuneytið hefur skoðað. Síðan eru alls konar hugmyndir til um reiknireglur, þar á meðal sú sem gildir í dag eða útfærslur á henni. Sumir hafa talað fyrir markaðslausnum. Að selja þá annað hvort aflamark eða aflahlutdeildir.“

Stuðningurinn víðtækari
Veiðigjaldið er ekki síst hugsað til þess að skapa sátt í samfélaginu um kvótakerfið, sem engu að síður er umdeilt enn í dag.

„Það er ekki að sjá að deilurnar um kvótakerfið hafi neitt gufað upp,“ segir Daði Már. „Stuðningur við það er samt miklu víðtækari núna en hann var fyrir tíu árum síðan. Það er eins og menn séu almennt búnir að gera upp við sig að þetta er kerfi sem hvetur til verðmætasköpunar.“

Hann segir engan vafa leika á því að þetta kerfi hafi skilað árangri.

„Tvímælalaust, og þar eigum við mjög áreiðanlega tölfræði sem sýnir fram á það. Þannig að í dag myndi ég segja að það er enginn sjávarútvegur í heiminum sem er betri í að skapa verðmæti úr hráefni en íslenskur sjávarútvegur. Það er ekki þar með sagt að við séum komin á einhverja endastöð eða hann sé fullkominn, það er svo fjarri lagi. En það er samt ljóst að kerfið hefur hjálpað í þeirri þróun.“

Langbesta fyrirkomulagið
„En nú skal ég vera hreinskilinn með það að ég er mikill stuðningsmaður kvótakerfisins, þó það sé alls ekki gallalaust,“ segir Daði Már. „Ef það þarf að velja á milli þess að vera með annað hvort óarðbærar veiðar eins og til dæmis Norðmenn eða Evrópusambandið stunda eða stjórnlausar veiðar eins og er víða í heiminum, og þess að þurfa að sætta sig við þessa takmörkun sem fylgir kvótafyrirkomulaginu, þá er enginn vafi í mínum huga að þetta er langsamlega besta fyrirkomulagið.“

Hann segir að ef vel er að staðið ætti fiskveiðistjórnunarkerfið að geta skapað umtalsverða rentu umfram eðlilegan hagnað. Mat á þeim hagnaði verði hins vegar alltaf erfitt.

„Það er held ég almennur skilningur á því að núverandi aðferðafræði við mat á rentu er gölluð, en það eru skiptar skoðanir á því hvaða aðferðafræði eigi að beita. Og það er ein spurning. En svo eru skiptar skoðanir um það hversu umfangsmikil þessi gjaldtaka eigi að vera, og það er önnur spurning. Það er auðvitað hægt að beita mörgum aðferðum við að innheimta sömu upphæð, og það er það sem nefndin hefur verið að skoða.“

Þversögn í kröfunum
Hann segir að menn hafi kannski aldrei horfst almennilega í augu við það að í sjávarútvegi er stærðarhagkvæmni nokkuð augljós.

„Ef þú skoðar hagtölur í sjávarútvegi eins langt aftur og Hagstofan á gögn um, sem er eitthvað aftur til 1980, þá blasir við að stærstu fyrirtækin eru að jafnaði með bestu afkomuna. Það þarf því engan sérstakan snilling eða gráðu í hagfræði til að átta sig á því að þegar gjöld eru lögð á sjávarútveginn með núverandi fyrirkomulagi þá er gjaldtakan að jafnaði þyngri byrði fyrir lítil fyrirtæki en stór,“ segir Daði Már. „Og þá blasir líka við að lakast settu fyrirtækin, þau sem eru með minnstu arðsemina, upplifa þetta gjald auðvitað sem þyngri byrði en þau sem eru með bestu arðsemina.“

„Þess vegna finnst manni stundum ákveðin þversögn í því að ákveðnir aðilar í umræðunni tala bæði fyrir mjög háu gjaldi en líka gjaldi sem engin áhrif hefur á strúktúr sjávarútvegsins. Þetta tvennt er ósamrýmanlegt. Og þess vegna tel ég mikilvægt að menn nálgist þetta sem það tæknilega viðfangsefni sem það er. Menn þurfa að gera það upp við sig hvort þeir vilja miklar tekjur og verða þá óumflýjanlega að sætta sig við mikil áhrif, eða litlar tekjur og geta þá lifað með litlum áhrifum.“

Óvissan lamar byggðirnar
„Svo er það ekki endilega þannig að það sé hægt að laga neikvæð áhrif kvótakerfisins með peningum,“ segir Daði Már, og vitnar í því samhengi í Þórodd Bjarnason, sem var um hríð stjórnarformaður Byggðastofnunar og er prófessor í félagsfræði við háskólann á Akureyri.

„Mér hefur þótt hans nálgun skynsamleg. Það sem hann bendir helst á að sé galli við kvótakerfið er áhrif þess á byggðafestu. Grundvallaróvissa um þennan atvinnuveg, sem meira og minna öll þjónusta á mörgum litlum stöðum úti á landi byggir á, hefur ein og sér mikil áhrif á byggðirnar. Þessi óvissa dregur úr vilja aðila í öðrum atvinnugreinum til að ráðast í fjárfestingar. Ef þú ert til dæmis verslunareigandinn á litlum stað og býrð í stöðugri óvissu um að sá sem á kvótann á staðnum selji hann, þá ferð þú ekki að byggja við eða stækka, jafnvel þótt kannski væri ástæða til þess. Þetta dregur máttinn úr þessum atvinnugreinum, og það er kannski ekki alveg einfalt að bæta það upp með peningum.“

Tæknilegt viðfangsefni
Hann segist líka alltaf verða hissa þegar menn fara að agnúast út í arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja, en þær hafa iðulega orðið tilefni til harðrar gagnrýni á kvótakerfið eins og það er.

„Það er nú einu sinni þannig að ef þú ætlar að fjárfesta í atvinnurekstri þá gerirðu það ekki án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í þinn hlut. Og mér finnst að menn þurfi þá að skoða hvort þessar arðgreiðslur eru meiri eða minni en eðlilegt er fyrir atvinnurekstur með sambærilega áhættu, frekar en að bera þær alltaf saman við veiðigjaldið. Ef þú getur sýnt fram á að arðgreiðslurnar séu alveg út úr korti miðað við bundið fjármagn, þá geta menn farið að tala saman.“

„Ég skil vel af hverju þetta er viðkvæmt mál og þessar miklu tilfinningar sem eru tengdar þessu og ber fyrir því fulla virðingu,“ segir Daði Már. „Auðvitað vonar maður samt alltaf að það sé hægt að nálgast þessa umræðu meira sem það raunverulega tæknilega viðfangsefni sem mér finnst það vera í dag frekar en þetta pólitíska þrætuepli sem það er. Það eru til vondar og góðar leiðir til að innheimta gjöld. Og það hlýtur að vera hægt að nálgast einhver skilyrði eða einhverja mælikvarða á það hvernig á að standa að þessu, en það hefur hingað til reynst mjög erfitt.“