Fiskistofa hefur opnað fyrir umsóknir um leyfi til veiða á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski. Leyfið veitir heimild til að stunda línuveiðar á túnfiski á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember. Leyfi verður veitt til veiða á 200 tonnum á bláuggatúnfiski. Gefin verða út að hámarki þrjú leyfi. Síðast þegar opnað var fyrir umsóknir um leyfi til túnfiskveiða við Ísland sótti enginn um.

436 tonn fallið niður síðustu 2 ár

Átta ár eru síðan stundaðar voru beinar veiðar á túnfiski af íslensku skipi en fiskur þessarar tegundar kemur sem meðafli af og til, einkum með uppsjávarveiðum. Tvö síðastliðin sumur hefur fallið niður 436 tonna túnfiskkvóti Íslendinga þar sem enginn hefur borið sig eftir veiðum á þessum verðmæta fiski. Frá því Ísland gerðist aðili að Alþjóða túnfiskráðinu, ICCT, árið 2002, hefur úthlutaður heildarkvóti verið tæp 2 þúsund tonn. Heildarveiðin á þessu tímabili er hins vegar ekki nema 83 tonn.

Umsóknarfrestur nú er til og með 10. mars. Skilyrði til að fá leyfi til þessara veiða eru þau að skip hafi almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni, sé að lágmarki 500 brúttótonn að stærð og búi yfir fullnægjandi útbúnaði til veiða og meðhöndlunar á bláuggatúnfiskafla. Umsækjendur þurfa að skýra frá hvenær þeir ætli að stunda veiðarnar, lýsa útbúnaði skips, einkum hvað varðar vinnslu- og frystigetu, hvar þeir hyggist landa afla og hvernig þeir hyggist ráðstafa aflanum.

Túnfiskur skorinn hjá Vísi í Grindavík.
Túnfiskur skorinn hjá Vísi í Grindavík.

Mikið í húfi

Vísir hf. í Grindavík gerði Jóhönnu Gísladóttur GK út til veiðanna í þrjú ár. Fyrstu vertíðina árið 2014 nam aflinn 28 tonnum og árið 2015 var veiðin 37,4 tonn. Síðsumars 2016 gengu veiðar mun verr en fyrri árin tvö og var heildarveiðin 6 tonn úr 44 tonna kvóta en af þeim afla veiddi Jóhanna Gísladóttir GK-355 einungis 3,2 tonn. Annar túnfiskafli ársins kom upp sem meðafli annarra skipa.

Mikið er í húfi fyrir Íslendinga að hefja að nýju veiðar á bláuggatúnfiski úr árlegum kvóta sem Atlantshafstúnfiskráðið, ICCT, úthlutar. Óttast margir að sú hætta sé fyrir hendi að kvótanum verði ráðstafað til annarra aðildarríkja ICCT beri Íslendingar sig ekki eftir veiðunum. Í júní 2022 voru sett lög um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem veittu tímabundnar heimildir til að taka á leigu sérhæft erlent skip til veiðanna í því augnamiði að viðhalda veiðireynslu Íslands. Í ljós kom að lögin gengu í berhögg við reglur ICCAT sem kveða á um að einungis skip viðkomandi aðildarríkis sinni veiðunum.