Ný rannsókn norsku rannsóknastofnunarinnar Nofima hefur leitt í ljós að af 56 vörum, sem innihalda omega-3 fitusýrur og boðnar eru til sölu í verslunum í Noregi sem heilsuvörur, reyndust aðeins fjórar uppfylla alþjóðlega gæðastaðla um fisklýsi.

Í mörgum tilfellum reyndist lýsið í vörunum vera þránað og slíkt kann að hafa skaðleg áhrif á heilsu manna. Flest heilbrigt fólk hefur reyndar varnarkerfi gegn þráu lýsi en ekki er vitað með vissu hvaða áhrif það hefur á sjúka, segja sérfræðingar Nofima.

Fram kemur í frétt sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren af málinu að Matvælaeftirlitið í Noregi fylgist ekkert með gæðum omega-3 fitusýra í matvælum. Þessu þurfi að breyta svo tryggt sé að neytendur geti treyst því að þær vörur sem seldar eru sem heilsuvörur séu í raun heilsusamlegar.

Nofima rannsakaði alls 113 vörur á norska markaðnum sem sagðar voru innihalda omega-3 fitusýrur. Ómögulegt reyndist að efnagreina helming varanna vegna þess hve mörgum viðbótarefnum, svo sem bragðefnum, vítamín og steinefnum, var búið að bæta í þær.

Þess má geta að markaðurinn fyrir vörur sem innihalda omega-3 fitusýrur hefur stækkað gríðarlega á undanförnum árum og er talinn velta jafnvirði 40 milljarða íslenskra króna í Evrópu og tvöfaldri þeirri upphæð í Bandaríkjunum, að því er segir í norska blaðinu.