Hópur vísindamanna í Stirling háskólanum í Bretlandi hefur komist að því að omega-3 fitusýrur hafi minnkað um helming í eldislaxi á síðustu fimm árum. Þrátt fyrir þetta er eldislax ennþá ein helsta uppspretta þessarar hollu fitu. Frá þessu er greint á vefnum fis.com.

Fyrir fimm árum gat einn 130 gramma skammtur af eldislaxi gefið um 3,5 grömm af omega-3. Þetta magn samsvarar ráðlögðum vikuskammti af feitum fiski. Nú er magn omega-3 komið niður í 1,75 gramm.

Vísindamennirnir segja að eldislax sé þó ennþá mikilvægur sem hollustufæða og enginn annar fiskur innihaldi jafnmikið af omega-3, ekki einu sinni villtur lax.

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi ráðleggja nú að fólk borði tvo skammta af fiski í viku og að annar skammturinn eigi að vera feitur fiskur. Vísindamennirnir segja að breyta þurfi þessari ráðleggingu þannig að fólk verði hvatt til að borða fisk þrisvar í vikur, þar af tvisvar sinnum feitan fisk.

Eldislaxinn fær fituna úr fóðrinu sem fyrir nokkrum árum samanstóð aðallega af fiskimjöli sem er unnið úr feitum fiski eins og ansjósum. Þá var um 80% af fóðrinu fengið frá feitum fiski en nú er það í kringum 20%.

Með vaxandi fiskeldi sjá menn fram á að framboð af fóðri sem unnið er úr bræðslufiski nægi ekki. Það sé líka vaxandi krafa að omega-3 sé unnið beint til manneldis úr bræðslufiski. Því þurfi fóðurframleiðendur að leita annarra leiða til að ná í omega-3. Ein leiðin sem horft er á er að framleiða omega-3 úr þörungum. Enn sem komið er hefur ekki fundist hagkvæm leið til þess.

Önnur leið er að rækta repjuplöntur sem hefur verið erfðabreytt þannig að þær gefi af sér olíu sem sé rík af omega-3. Nægt landrými sér til þess að rækta plöntur sem geti fullnægt eftirspurn fiskeldis í framtíðinni.