Enn bætist við listann yfir þá þætti sem omega-3 fitusýrur eru sagðar hafa jákvæð áhrif á. Nú eru það tóbaksreykingar. Með því að taka omega-3 minnkar löngunin í níkótín og fækkar þeim sígarettum sem fólk reykir á degi hverjum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá háskólanum í Haifa í Ísrael.

Samkvæmt rannsókninni hefur skortur á omega-3 neikvæð áhrif á taugafrumur og taugaboð í þeim hluta heilans sem hefur með ánægjutilfinningu og fullnægju að gera. Þátttakendur í rannsókninni voru á aldrinum 18-45 ára sem reyktu að minnsta kosti tíu sígarettur á dag árið á undan. Þeir voru taldir í meðallagi háðir níkótíni. Helmingurinn tók inn fimm hylki af omega-3 950 á dag í þrjátíu daga en hinn helmingurinn tók inn lyfleysu.

Eftir þessa þrjátíu daga kom í ljós að þeir sem tóku inn omega-3 hylkin höfðu óumbeðnir fækkað sígarettum sínum um tvær (11%) á dag og sýndu jafnframt merki um sýnilega minni löngun í níkótín. Engin breyting varð hjá hinum sem tóku lyfleysuna inn.

Nánar er skýrt frá rannsókninni  á vefnum fis.com