Spænski herinn hefur ákveðið að nota ómannaða þyrlu til þess að fylgjast með ferðum sómalskra sjóræningja í Indlandshafi sem herjað hafa á spænsk fiskiskip og skip frá öðrum löndum. Þetta er í fyrsta sinn sem Spánverjar beita slíkum aðferðum í viðureign sinni við sjóræningjana.
Þyrlan á einnig að hafa auga með höfnunum sem sjóræningjarnir nota sem bækistöðvar og hjálparskipunum sem þjóna þeim auk þess sem auðveldara verður að fylgjast með ferðum þeirra skipa sem sjóræningjarnir ná á sitt vald.
Spánverjar hafa nú þegar töluverðan viðbúnað á Indlandshafi til þess að vernda spænsk fiskiskip á þessum slóðum. Þeir hafa haldið úti Orion flugvél og einu eftirlitsskipi og nú er freigátan Victoria á leið á svæðið, en um borð í henni eru tvær þyrlur og næstum 300 hermenn.
Árið 2009 gerðu sómalskir skæruliðar meira en 200 árásir á skip í Indlandshafi og náðu á sitt vald 47 skipum með samtals 867 skipverjum.
Sjávarútvegsvefurinn fis.com skýrir frá þessu.