Bandaríkin eru ein mesta fiskveiðiþjóð í heimi en þangað er engu að síður flutt inn gríðarlegt magn sjávarafurða. Mikið af þeim fiski kemur frá löndum í Suðaustur-Asíu, eins og Víetnam.

Fullyrt er að meira en fjórðungur af sjávarafurðum úr villtum fiski, sem Bandaríkin kaupa, komi frá ólöglega veiddum fiski. Verðmæti þessa innflutnings gæti numið einum til tveimur milljörðum dollara á ári (131 til 262 milljörðum ISK).

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum hefur Bandaríska þingið samþykkt frumvarp um aðgerðir til að sporna gegn ólöglegum fiskveiðum. Frumvarpið bíður nú samþykktar Barak Obama Bandaríkjaforseta. Með frumvarpinu er meðal annars verið að styðja alþjóðlega sáttmála um baráttu gegn ólöglegum fiskveiðum.

Frá þessu er greint á vef FishUpdate.