Alþjóðalögreglan Interpol metur það svo að efnahagslegur skaði fiskveiðisamfélaga af ólöglegum fiskveiðum - sem aftur tengist peningaþvætti, fjársvikum og jafnvel eiturlyfjasölu og mannsali -  nemi meira en 20 milljörðum bandaríkjadala á ári, jafnvirði 2.340 milljarða íslenskra króna.

Þetta kom fram í erindi sem Gunnar Stolvik, yfirmaður þeirrar deildar Interpol sem fæst við ólöglegar veiðar, flutti nýlega á ráðstefnu á Spáni. Það er mat stofnunarinnar að um 20% alls afla úr úthafsveiðum í heiminum sé ólöglega tekinn. Í mörgum tilfellum séu glæpasamtök að baki þessari starfsemi.

Interpol hefur hrundið af stað sérstöku átaki til að sporna gegn ólöglegum veiðum og er athyglinni einkum beint að veiðum úti fyrir ströndum þróunarríkja svo sem í Vestur-Afríku. Mansal er talið tengjast þessum veiðum því í sumum tilfellum eru skipverjarnir á þeim ekki þar af fúsum og frjálsum vilja.

Í Evrópuríkjum hefur m.a. verið brugðist við ólöglegum veiðum með því að herða eftirlit með lönduðum afla en þróunarríki hafa í mörgum tilfellum ekki bolmagn til neinna slíkra aðgerða.