Öll veiðarfæri sem snerta hafsbotninn hafa einhver áhrif á botninn og lífríkið þar. Þau eru bara misjöfn, sum skaðleg og varanleg en önnur skipta litlu sem engu máli. Botnvarpan er það veiðarfæri sem hefur mesta yfirferð allar veiðarfæra.
Þetta kom fram í máli Haraldar A. Einarssonar, veiðarfærasérfræðings Hafrannsóknastofnunar, á ráðstefnu sem haldinn var nýlega. Greint er frá efni erindisins í nýjustu Fiskifréttum. Haraldur gat þess að botnvarpan hefði áhrif á um 92 þúsund ferkílómetra á hafsbotninum miðað við meðaltal sl. 5 ára, en þess má geta að íslensk fiskveiðilandhelgi er um 758 þúsund ferkílómetrar.
Haraldur sagði að veiðarfæri hvaða nafni sem þau nefndust, þar sem náttúrulegt rask væri til staðar á hafsbotni, t.d. á sandbotni á grunnsævi, hefðu lítil varanleg áhrif. Hins vegar geta veiðarfærið valdið varanlegum skaða á viðkvæmum búsvæðum, til dæmis þar sem kóralar eru.
„Svo er annað sem þarf að hafa í huga þegar áhrif stórvirkra veiðarfæra eru metin. Svampar á hafsbotni eru til dæmis jafndauðir hvort sem bómullargarn strjúkist létt í gegnum þá eða þeir eru rotaðir með 3ja tonna hlera!“ sagði Haraldur.