Efnin sem í plasti sem borist hefur í sjóinn eru mörg hver krabbameinsvaldandi eða hafa hormónaáhrif, til dæmis á estrógen og þar með á frjósemi fólks.

Þetta kemur fram á vefsíðu Matís þar sem sagt er frá ýmsum verkefnum sem þar hafa verið unnin og tengjast plasti á einn eða annan hátt.

Nauðsynlegt að leysa plastið af hólmi

„Brýn þörf er á því að þróa nýjar, umhverfisvænar lausnir þegar kemur að pökkunarefnum fyrir matvæli til þess að leysa plastið af hólmi og Matís hefur unnið með frumkvöðlum og rannsóknaraðilum innanlands og utan að því að finna heppilega staðgengla. Einnig hafa verið unnin almennari verkefni um plast til dæmis til þess að skilgreina, rannsaka og fylgjast með plasti í umhverfinu með það fyrir augum að auka umhverfisvitund fólks og draga úr plastnotkun,“ segir á matis.is.

Annað stórt markmið hafi verið að vekja athygli á plastvandanum í samfélaginu.

Sjáum ekki örplast og áttum okkur ekki á vandanum

„Í dag er fólk farið að átta sig á því að stórir plast hlutir í sjónum á borð við einnota borðbúnað, plastumbúðir, veiðarfæri og fleira eru vandamál en við sjáum örplast ekki og áttum okkur því ekki jafn vel á því hve stórt vandamálið í kringum það er,“ segir á matis..is.

Örplast verði til annars vegar þegar stærri plasteiningar brotni niður með tímanum og hins vegar sé það framleitt sérstaklega og notað í ýmsar vörur eins og hreinsiefni, málningu, fatnað og fleira.

Örplast í öllu mögulegu

„Örplast má finna í öllu mögulegu. Í vatni, á jöklum og í andrúmsloftinu. Sýnt hefur verið fram á að við mannfólkið innbyrðum því sem jafngildir einu greiðslukorti á viku vegna plastmengunar,“ segir áfram í umfjölluninni.

„Í verkefninu um kemísk efni í veðruðu örplasti í sjónum var kannað hvort og í hversu miklu magni efnin sem eru í plasti og eru skaðleg skila sér út í sjávarumhverfið. Tvær gerðir af plasti voru hakkaðar niður í örlitlar agnir og settar í netapoka út í sjóinn í fjóra mánuði. Gerðar voru efnamælingar bæði áður en plastið var sett í sjóinn og eftir að það var tekið upp aftur og þá var hægt að sjá muninn á því hve mikið af plastefnunum hafði losnað,“ segir áfram á matis.isþar sem nánar er fjallað um málið.