Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, segir erfitt að sjá fyrir hvaða afleiðingar innrás Rússa í Úkraínu hafi á viðskipti íslenskra tæknifyrirtækja í Rússlandi; fyrirtæki eins og Naust Marine, Skagann 3X, Frost og fleiri sem hafa gert stóra viðskiptasamninga undanfarin misseri við sjávarútvegsfyrirtæki í landinu.

„Evrópusambandið hefur gefið út sínar viðskiptaþvinganir í fyrstu atrennu og ugglaust á fleira eftir að koma til. En eins og árið 2015 geta Rússar komið með gagnaðgerðir. Þær stöðvuðu sölu á sjávarafurðum frá Íslandi til Rússlands. Rússar hafa sagt að þeir muni beita gagnaðgerðum en það er ekki ljóst ennþá á hvaða sviði þær verða,“ segir Árni Þór.

Hann segir einnig óljóst hvort aðgerðirnar muni ganga á víxl með aðgerðum frá Vesturlöndum sem Rússar svari og því svo svarað með öðrum aðgerðum koll af kolli.

„Á þessu stigi er því erfitt að sjá fyrir hvaða áhrif þessir atburðir hafa á íslensk fyrirtæki. Íslensk tæknifyrirtæki hafa ekki fallið undir viðskiptaþvinganir Rússa til þessa og breytist það ekki má vera þokkalega bjartsýnn um að aðgerðirnar muni ekki hafa veruleg áhrif þar til lengri tíma litið. Þetta er þó sagt með öllum fyrirvörum.“

Töluverð umsvif

Talsverður fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur þjónustað rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki með tækjum og búnaði og má þar nefna Nautic sem er með samning um hönnun á tíu skipum fyrir Norebo, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Naust Marine, sem framleiðir vindur og spilbúnað í öll skip Norebo auk risatogarans Viktors Gavrilovs sem nú er í smíðum, Frost á Akureyri sem sömuleiðis hefur gert stóra samninga um kæli- og frystibúnað, Rafeyri, Marel, Kapp og Skagann 3X, sem nú er reyndar 100% í erlendri eigu.

Árni Þór segir að sendiráðið í Moskvu sé öllu jöfnu í ágætu sambandi við forsvarsmenn flestra þessara fyrirtækja. Hann segir að ætla megi að staða Nautic og Naust Marine sé öllu tryggari en annarra fyrirtækja í Rússlandi þar sem þau hafa bæði stofnað fyrirtæki í Rússlandi.

„Rússar munu seint grípa til aðgerða gegn rússneskum fyrirtækjum. Mér sýnist því að þessi tilteknu fyrirtæki ættu að geta verið tiltölulega áhyggjulaus. Þó verður að geta þess að lokun SWIFT gagnvart rússneskum bönkum, fall rúblunnar og stórhækkaðir vextir í Rússlandi mun hafa mikil áhrif á allt efnahags- og atvinnulíf í Rússlandi. Síðan er ekki vitað hvaða áhrif deilur af þessu tagi hafa á almenn samskipti og vilja viðskiptalífsins til þess að sækja inn á markað sem er pólitískt ótraustur,“ segir sendiherrann.