„Það er betra að hreinsa vélina en að hreinsa lungun,“ segir Guðbjartur Einarsson, eigandi Véltaks, fyrirtækis sem hefur hannað og smíðað búnað kemur í veg fyrir að andrúmsloftið í vélarrúmi verði olíumettað.

„Það getur farið svo í framtíðinni að skipseigendur og vélaframleiðendur verði gerðir ábyrgir fyrir heilsutjóni. Ég spái því að innan mjög skamms tíma verði þeir skyldaðir til að koma í veg fyrir mengun úr vélum.“

Töluverð reynsla er komin á búnaðinn. Hann var fyrst settur upp í tilraunaskyni árið 2005 í frystitogaranum Þór HF og reyndist þar vel eins og annars staðar þar sem hann hefur verið notaður. Nú er hann kominn í um fimmtán skip hér á landi og hefur einnig verið tekinn í notkun í Hollandi, Noregi og Færeyjum. Samgöngustofa hefur styrkt þetta verkefni frá upphafi.

„Í stuttu máli virkar þetta þannig að olíugufan er soguð út úr sveifarhúsinu með undirþrýstingi, síðan er hún kæld og sett aftur inn í vélina,“ segir Jón Bernódusson, fagstjóri rannsókna, þróunar og greingar hjá Samgöngustofu. „Þannig að þarna nýtist líka olía sem annars hefði farið til spillis. Þetta er því sparnaður líka.“

Sýnt hefur verið fram á að olíumettað andrúmsloft í vélarrúmi getur valdið ýmsum kvillum og jafnvel krabbameini.

„Ef sjómenn eru í slæmu lofti hefur það áhrif á einbeitingu, menn verða fyrr þreyttir og meiri hætta er á slysum,“ segir Jón. „Þetta er líka mannréttindamál. Það eru mannréttindi að þurfa ekki að vinna við þessar aðstæður. Þess vegna styrktum við þetta verkefni.“

Í meiri hættu en aðrir
Hann segir gufuna af smurolíu fulla af alls konar eiturefnum sem líkaminn losar sig ekki við.

„Þetta situr þar fast og étur lungun og fleira. Smurolíugufa fer út úr sveifarhúsi vélarinnar inn í umhverfi vélstjórans eða þess sem starfar í vélarrúminu. Hann andar að sér þessari gufu, verður þreyttur og fær síðan krabbamein eins og Vilhjálmur Rafnsson er búinn að sýna fram á. Þetta eru sjúkdómar sem koma út frá umhverfisvanda,“ segir Jón.

Árið 2003 birti Vilhjálmur Rafnsson prófessor rannsókn sína á tíðni krabbameins meðal íslenskra vélstjóra, þar sem fram kom að vélamenn í skipum hafi mun frekar átt það á hættu en aðrir á að fá ákveðnar tegundir krabbameins. Þar koma einkum við sögu krabbamein í maga, lungum, brjósthimnu og þvagblöðru.

Vilhjálmur segir margt benda til þess að snerting við olíu geti skýrt þessa auknu tíðni krabbameins í lungum, maga og þvagblöðru meðal vélstjóranna. Frekari rannsókna þurfi samt við til að staðfesta þetta orsakasamhengi.

Guðbjartur segir alla sem prófað hafa búnaðinn hafa verið ánægða með árangurinn. Allt annað sé að koma inn í vélarrýmið eftir að andrúmsloftið batnaði. Lítil þörf sé reyndar fyrir hann í nýjum vélum, sem eru vel þéttar og hleypi engu út, en þegar þær eldast þá kemur oft annað hljóð í strokkinn.

Nýjar vélar verða líka gamlar
„Jú, við höfum selt þetta mest í eldri vélar. Nýjar vélar menga minna en þær verða líka gamlar, eftir fimm ár fara að smita út frá sér og og þá ertu kominn út í sama horf,“ segir Guðbjartur.

Fiskifréttir hafa undanfarið greint frá öðrum nýjungum varðandi öryggi sjófarenda sem Samgöngustofa hefur styrkt. Fyrir hálfum mánuði sögðum við frá Strandvara , búnaði sem á hreinlega að koma í veg fyrir að skip eða bátar strandi. Í síðustu viku skýrðum við svo frá búnaði sem nefnist Maður fyrir borð og á að auðvelda björgun úr sjó með því að koma á fjarskiptasambandi beint við manninn í sjónum.

Bæði Strandvari og Maður fyrir borð eru enn á þróunarstigi, en Strandvari er lengra kominn og hefur verið í notkun í tilraunskyni um nokkurt skeið.

„Ég myndi segja að þetta séu einn merkilegustu hlutirnir sem við höfum verið að styrkja í gegnum tíðina, þótt fleira markvert hafi verið styrkt líka,“ segir Jón Bernódusson.