Olíudreifing hefur fengið samþykkta stækkun lóðar sinnar við Patrekshöfn.
Áformar félagið að koma fyrir tveimur niðurgröfnum geymum sem anna eiga framtíðareftirspurn eftir sjálfbæru eldsneyti, eins og til dæmis metanóli. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar.
„Á 41. fundi hafna- og atvinnumálaráðs voru samþykkt áform Skeljungs um að koma upp eldsneytisafgreiðslu við norður-horn lóðar Olíudreifingar við Patrekshöfn, stöðin er ætluð fyrir stærri ökutæki. Umbeðin lóðarstækkun Olíudreifingar skerðir aðkomu að stöðinni. Hafna- og atvinnumálaráð lagði til að fleygur verði á norður-horni lóðar Olíudreifingar,“ segir um málið í fundargerð bæjarráðs. Hafna- og atvinnumálaráð hafi lagt til að stækkun lóðarinar yrði samþykkt miðað við þetta.
„Ráðið vakti athygli umsækjenda á því að rafstrengir liggja um hluta svæðisins og þá er fráveita á vegum sveitarfélagsins einnig á hluta svæðisins. Breytingar á þessum kerfum verða á kostnað umsækjenda, þá þarf Olíudreifing einnig að standa straum af kostnaði við færslu á hluta bátauppsáturssvæðis sem þarf að flytja við stækkun lóðarinnar,“ segir í fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar.