Úthafsrækjustofninn við Ísland mælist enn lítill og nýliðunin sú næstlélegasta frá upphafi. Hafrannsóknastofnun leggur til 7.000 tonna hámarksafla á nýbyrjuðu fiskveiðiári sem er jafnhátt útgefnum kvóta á liðnu kvótaári.
Nú liggja fyrir niðurstöður úr mælingum á úthafsrækjustofninum. Stofninn mælist enn lítill og er veiðistofnsvísitalan svipuð og hún hefur verið síðustu fjögur ár. Mjög lítið fannst af rækju austarlega á miðunum miðað við síðustu ár. Hins vegar var meira af rækju úti af Norðurlandi, milli 15. og 20. gráðu vestlægrar lengdar, en hefur verið undanfarin tvö ár.
Þetta kom fram í árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar á úthafsrækju fyrir norðan og austan land sem fram fór á r/s Bjarna Sæmundssyni á tímabilinu 12.-26. júlí. Byrjað var fyrir Austurlandi og haldið vestur fyrir.
Rækjan var að meðaltali stór og var hún svipuð og árið 2009. Smæst var rækjan norðaustur af landinu (288 stk/kg) en stærst austast (146 stk/kg) á rannsóknasvæðinu.
Mikið fékkst af þorski í þessari rækjukönnun eða svipað og í fyrra. Mest var af þorski norður af Húnaflóa og í Skagafirði og einnig austur af landinu.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar, HÉR