Sjávarútvegsráðuneytið á Falklandseyjum hefur upplýst að á þessu ári hafi verið sett met í veiðum á smokkfiski. Þessi góða veiði sé jafnframt mikil lyftistöng fyrir efnahag landsins.
Frá þessu er greint á vef fis.com og vísað í breska dagblaðið The Telegraph. Þar segir að þessi metveiði hafi skilað tæpum 45 milljónum sterlingpunda (8,7 milljörðum ISK). Hún sé því líkleg til að vera eins og olía á eldinn í „smokkastríði“ sem Argentína lýsti yfir fyrir tveimur árum. Sem kunnugt er gerir Argentína enn tilkall til áhrifa á Falklandseyjum og á hafsvæðinu þar í kring.