Vestmannaey VE landaði í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær og Bergur VE landaði þar í dag. Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, talaði mest um veðrið við tíðindamann Síldarvinnslunnar.

„Það er ekki einleikið hvernig veðrið lætur við okkur þessa dagana. Það hefur í sannleika sagt verið djöfullegt. Janúar var í lagi veðurfarslega en febrúar var slæmur og þessir fyrstu dagar í mars hafa verið skelfilegir. Þegar við vorum á landleið var ölduhæðin 10 metrar og djöflagangurinn engu líkur. Þetta var stuttur túr hjá okkur. Við vorum að veiðum á Ingólfshöfða í tvo sólarhringa og fengum þar 60 tonn, mest ýsu. Svo gerðist það að allir skjár um borð duttu út og við urðum að koma okkur í land og láta lagfæra tölvukerfið og það gekk vel. Á þessum slóðum sem við vorum á er ekki jafnmikil fiskgegnd og í fyrra. Vertíðarfiskur er ekki kominn þarna. Líklega hefur loðnuleysið þessi áhrif,” sagði Egill Guðni. Vestmannaey hélt til veiða á ný í gær

Jóni Valgeirssyni, skipstjóra á Bergi, var einnig tíðrætt um veðrið.

„Við lönduðum á Djúpavogi sl. fimmtudag. Það var langmest ýsa sem fékkst á Ingólfshöfðanum. Það var þokkalegt veður í þeim túr. Síðan var haldið í Lónsbugtina og þá breyttist veðrið til hins verra. Sannleikurinn er sá að tíðarfarið hefur verið ógeðslegt að undanförnu. Í Lónsbugtinni fékkst skarkoli, þorskur og ýsa. Síðan var haldið á Ingólfshöfðann og þar fengum við þorsk í bölvaðri skítabrælu. Við erum svo að landa 63 tonnum í Eyjum í dag og erum fegnir að hvíla okkur á látunum,” sagði Jón.