Nánast er ógerningur, miðað við núverandi þekkingu, að spá fram í tímann um þróun loðnustofnsins. Þetta er stutta svarið við þeirri spurningu hver áhrif hlýnunar sjávar á vöxt, göngur og útbreiðslu loðnustofnsins eru.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins 2000-2019. Skýrslan var unnin að beiðni Ingu Sæland og sextán annarra alþingismanna og var sett fram þegar loðnubrestur vetrarins blasti við. Skýrslan lá fyrir þann 6. september.
Hopar fyrir hlýindum
Hitt er vitað að loðnan hefur hopað fyrir hlýindunum á undanförnum árum, haldið sig lengra norður í höfum og vestar yfir grænlenska landgrunninu. Breytt göngumynstur hennar er staðreynd og jafnframt hefur dregið úr nýliðun og loðnustofninn hefur minnkað. Hvort rekja megi minnkandi nýliðun til veðurfarbreytinga eða áhrifa þeirra á fæðu loðnunnar er ekki vitað en „mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að loðnan er skammlíf tegund og viðkomubrestur, þó að ekki sé nema eitt ár, getur haft mikil áhrif á stofnstærðina,“ segir í skýrslunni. Jafnframt að á sama hátt kann góð nýliðun eitt árið stuðlað að því að stofninn nái sér að verulegu leyti.
„Sparnaður“
Veiðistofn loðnu samanstendur að mestu af einum árgangi hverju sinni og hrygnir mestur hluti stofnsins við þriggja ára aldur. Mælingar á stærð stofnsins fara fram að hausti og stærð veiðistofns er endurmetinn að vetri. Á haustin fæst bæði mat á stærð veiðistofns og ungloðnu. Ungloðnan er að stærstum hluta ársgömul og kemur í veiðistofn ári síðar.
Það vekur hins vegar athygli að í skýrslunni segir að mælingar á yngri loðnu, eða loðnu á fyrsta ári, hafa ekki farið fram frá árinu 2003 þegar síðast var farið í svokallaðan seiðaleiðangur. Hann var aflagður í sparnaðarskyni en sá leiðangur var farinn árlega frá árinu 1976 til 2003, til að meta magn seiða nytjastofna við Ísland.
Í skýrslunni segir að sökum þess hversu lífsferill loðnunnar er stuttur er lítið hægt að fjalla um stærð uppvaxandi árganga annan en þann sem mun koma inn í hrygningarstofninn á næstu vertíð. Horfurnar fyrir næstu vertíð eru ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Mæling á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefur ekki miklar vonir en vísitalan var með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Ekki var óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að vísitalan væri tíföld miðað við það mat sem nú liggur fyrir.
Mikilvægt æti
Mikilvægi loðnunnar sem æti þorsks, og annarra nytjastofna sjávar, er vel þekkt. Í skýrslunni er nákvæmlega gerð grein fyrir þessum þætti, og má kynna sér í gögnum frá Hafrannsóknastofnun í skýrslunni. Fæðusýnum úr þorski hefur verið safnað síðan 1975. Eldri rannsóknir sem þær sem nýrri eru sýna það sama, eða að loðna er ein mikilvægasta fæðutegund þorsks, sérstaklega síðari hluta vetrar.
Á árunum 1992 til 2003 var áætluð stærð loðnustofnsins til dæmis notuð til að sá fyrir um meðalþyngd þorsks eftir aldri í afla árið eftir. Sambandið milli meðalþyngdar þorsks eftir aldri í afla og stærðar loðnustofns var lengst af allgott fyrir algengustu aldurflokkana í veiðinni, eða fjögurra til sjö ára fisks.
„Þetta samband hefur riðlast, líklega vegna breytts atferlis og útbreiðslu loðnu í tengslum við breytt umhverfisskilyrði og hugsanlega einnig vegna breytinga á fæðuvali/fæðuframboði þorsks,“ segir í skýrslunni og þetta skýrt þar nánar. Þá segir að meðalþyngd eftir aldri í stofnmælingu að eftir aldri í stofnmælingu að vori hefur verið heldur yfir meðaltali hjá þorski eldri en fimm ára frá árinu 2010. Loðnustofninn hefur að meðaltali verið lítill á þessum tíma og viðvera loðnu á landgrunninu takmörkuð.
„Þetta eru vísbendingar um að þorskur sé ekki eins háður loðnu nú og áður var.“
Ný aflaregla
Árið 2015 var tekin upp ný aflaregla við ákvörðun á aflamarki á loðnu. Þar er m.a. tekið tillit til afráns þorsks, ýsu og ufsa á loðnu frá því að stofnmælingu á loðnu lýkur og fram að hrygningu. Beitt er svokölluðu afránslíkani sem nýtir gögn um áætlaða stofnstærð og dreifingu þessara botnfiska, fæðu þeirra og meltingarhraða. Á tímabilinu 15. Janúar til 15. mars 2018 gaf þetta líkan um 220.000 tonna afrán þessara tegunda á loðnu, þar af þorskur um 150.000 tonn. Það leiddi til að ráðlagt aflamark í loðnu var lægra en sem nam áætluðu afráni.