Bjarni Eyjólfsson sigldi bát sínum, Lilju ÞH 21, í góðu veðri frá Akureyri til Húsavíkur strax að kvöldi 30. apríl og var búinn að landa skammtinum upp úr hádegi. Hann býr á Akureyri en gerir út á strandveiðar í sumar frá Húsavík, eins og hann hefur gert undanfarin ár.

„Þetta er staðurinn sem maður hefur valið sér,“ segir hann en tekur fram að norðaustursvæðið, sem er svæði C samkvæmt reglugerðinni, henti kannski ekkert sérlega vel þegar að strandveiði kemur. Að minnsta kosti ekki miðað við núverandi fyrirkomulag.

„Það er oft ágætt fyrstu dagana í maí þegar hrygningarfiskurinn er ennþá í fjörðunum. Svo er seinni parturinn í maí og júní frekar erfiðir hérna. Okkar mánuðir eru seinni partur júlí og ágúst. En þá er kvótinn yfirleitt búinn þegar okkar besti tími kemur.“

Bjarni Eyjólfsson í brúnni bát sínum Lilju ÞE 21 á siglingu frá Akureyri seint á mánudagskvöld. Haldið var til Húsavíkur þar sem gert verður út á strandveiðar í sumar. FF MYND/Þorgeir Baldursson
Bjarni Eyjólfsson í brúnni bát sínum Lilju ÞE 21 á siglingu frá Akureyri seint á mánudagskvöld. Haldið var til Húsavíkur þar sem gert verður út á strandveiðar í sumar. FF MYND/Þorgeir Baldursson
© Þorgeir Baldursson (.)

Allt niðurnjörfað

Spurður hvort hann telji að svæðaskipting lagi það, segist hann svo sem búast við því en betra væri að halda sig við það að hver bátur megi vera með 48 daga.

„Það á bara að vera með 48 daga á þessa báta og láta þetta svo í friði. Ég held að það sé einfaldast fyrir þá. Það verður engu rústað með öllum þeim girðingum sem eru í kringum þetta. Það er allt niðurnjörfað.“

Reglugerð um strandveiði sumarsins var ekki gefin út fyrr í vikunni áður en þær hófust, og ráðuneytið fylgdi þeirri reglugerð eftir með fyrirvara um að mögulega þyrfti að breyta henni ef frumvarp um breytt fyrirkomulag veiðanna verður að lögum.

„Þetta er bara lýsandi fyrir strandveiðarnar, ófyrirsjáanleikinn er algjör. Fiskistofa getur ekki gefið út veiðileyfin fyrr en bara rétt korter áður en á að fara að veiða, en það er ekki við þá að sakast. Þetta er af því reglugerðin var ekki komin fyrr frá ráðuneytinu.“

Ekki gott fyrir austursvæðið

Önnur óvissa er fólgin í því hvort heildarkvóti sumarsins dugar út sumarið.

„Það var slæmt í fyrra. Þá var skrúfað fyrir 21. júlí, þá vorum við komnir í stuð hérna fyrir norðan, með góðan fisk og svona. Ég veit ekki hvernig þetta verður núna. Það er bara óhemju fiskgengd í kringum landið og það hlýtur að koma niður á þessu líka, gerir maður ráð fyrir. Þannig að maður veit ekkert hvenær þessu lýkur, og ef það verður engu bætt við þá held ég að þetta verði svipað og í fyrra. Við bara reiknum með því að það verði bara þannig. Það er ekki gott fyrir þetta svæði hérna, austursvæðið.“

Hann segir samt óþarfi að hafa áhyggjur af því þótt heildarveiðin yrði meiri en ætlast er til.

„Ég held að það yrði enginn heimsendir á því. Ég hef ekki trú á því.“

Bjarni var um árabil togaraskipstjóri en hefur verið á strandveiðum á sumrin síðustu árin.

„Ég var búinn að vera á togurum í 34 ár, þá gerðist ég bóndi í 16 ár, og þá fór ég aftur á sjóinn. Þannig að maður hefur prófað ýmislegt áður en maður geispar golunni.“

Hann segist njóta þess að vera á strandveiðunum, enda telur hann ólíklegt að neinn standi í þeim veiðiskap nema hafa gaman af.

„Ég held þetta sé bara þannig starf að menn eru ekki í því ef þeim leiðist það.“

Fjölgar ár frá ári

LS Landssamband smábátasjómanna (LS) segir frá því á vef sínum að fyrsta dagin, n hafi 181 tonn af óslægðum handfæraþorski verið seld á fiskmörkuðum RSF. Meðalverðið var 406 krónur en á sama degi í fyrra voru 76 tonn seld og meðalverðið var 363 krónur á kíló.

Þá segir gríðarlegan áhuga vera á veiðunum. Við upphaf veiða hafði Fiskistofa úthlutað 490 bátum strandveiðileyfi, en í fyrra voru leyfin 409 og árið þar áður 390.

Langflest leyfin eru á svæði A, eða 264, en 72 á B-svæði, 48 á C-svæði og 106 á D-svæði.

Almennt hafi veiðar gengið vel, nóg sé af fiski og skammtur dagsins oft kominn í land strax á hádegi.