Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um hafa sendinefndir strandríkja við norðaustur Atlantshaf rætt undanfarna daga um stjórn veiða árið 2022 á norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl. Þar funduðu fulltrúar Íslands, Noregs, Færeyja, Bretlands, Evrópusambandsins, Grænlands og Rússlands.

Strandríkin voru sammála um að heildarveiðar skuli ekki vera umfram vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og var því samþykkt að setja heildaraflamark sem er 598.588 tonn fyrir síld, 752.736 tonn fyrir kolmunna og 794.920 tonn fyrir makríl.

Jafnframt var ákveðið að fela vísindamönnum strandríkjanna að uppfæra samantekt frá 2013 um dreifingu kolmunna og gera sambærilega skýrslu varðandi makríl.

Ekki náðist samkomulag um skiptingu heildaraflans milli strandríkjanna, sem öll eru sammála um að mikilvægt sé að leggja þunga áherslu á að reyna að ná niðurstöðu um það ágreiningsmál. Án slíks samkomulags er ljóst að raunverulegar veiðar verða umtalsvert meiri en sem nemur vísindaráðgjöfinni.

Ofveiðin

Árum saman hefur gengið illa að ná samkomulagi um þessar veiðar, með þeim afleiðingum að ofveiði hefur verið stunduð og MSC-vottun um sjálfbærni veiðanna fæst ekki.

Strandríkin hafa einhliða sett sér veiðikvóta hvert fyrir sig, sem veldur því að samtals hefur veiðin árum saman verið langt yfir ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Sjálfbærnisamtökin MSC fóru yfir stöðuna á norðurskautsráðstefnunni Arctic Circle í Reykjavík fyrr í mánuðinum. Þar kom fram að frá árinu 2015 hefur veiði makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar verið 34% yfir ráðgjöfinni, og heildarofveiði þessara stofna á þessu tímabili var 4,8 milljón tonn. Þessi ofveiði bitni á öllum stofnunum.

Fiskimjölskaupendur bæði í Noregi og Bretlandi hafa ítrekað skorað á strandríkin að hætta þessari ofveiði og hafa hótað að hætta að kaupa óvottaðar afurðir frá þessum löndum.

Með brotthvarfi Bretlands úr Evrópusambandinu hefur samsetning strandríkjahópsins breyst mjög, þar sem Bretland er nú sest við borðið með sjálfstætt samningsumboð. Ekki er gott að segja hvort það flæki stöðuna eða einfaldi.