Tilraunir norsku Hafrannsóknastofnunarinnar með geldlax sýna að hann dafnar að flestu leyti eins vel og venjulegur lax. Hann vex jafn hratt, er jafn heilbrigður og virðist hafa það jafn gott að öllu leyti. Innihald Omega 3 fitusýra er jafn mikið.
Eini sjáanlegi mununurinn var sá að lifrin vex hægar í geldlaxinum, sem rakið var til þess að venjulegi laxinn vex hraðar þegar komið er að kynþroska. Stofnunin segir að kynþroskanum fylgi raunar meiri hætta á sjúkdómum auk þess sem holdgæðin verða minni vegna þess að orkan fer meira í kynþroskann.
„Nú höfum við sýnt fram á að kynfrumulaus lax er að flestu leyti eins og venjulegur lax, en hann hefur þann stóra kost að hann verður aldrei kynþroska,“ er haft eftir Lene Kleppe, sem er í forsvari fyrir þessar rannsóknir.
Hér á landi hafa einnig um nokkurt skeið staðið yfir rannsóknir á því hvort ófrjór lax henti í eldi. Hafrannsóknastofnun, Benchmark Genetics, Háskólinn á Hólum og Stjörnu-Oddi standa að þessum rannsóknum í samvinnu við Fiskeldi Austfjarða. Seiði voru í fyrsta sinn sett í sjókvíar Fiskeldis Austfjarða í Berufirði síðastliðið haust.