Óforsvaranlegt er að vera ekki á loðnuslóðum við rannsóknir, nú þegar óvissa er mikil. Þetta er haft eftir Sveini Sveinbjörnssyni, sérfræðingi hjá Hafrannsóknarstofnun, í Fréttablaðinu í dag. Hann segir hegðun loðnunnar undarlega og allt bendi til þess að göngumynstur hennar sé gjörbreytt.

Rannsóknir á loðnunni séu mikilvægar í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir fyrir þjóðarbúið. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, tekur undir það, en segir fé skorta til rannsókna.

Loðnan heldur sig norður af landinu, ólíkt því sem vant er á þessum tíma árs. Haft er eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra HB Granda, að staðan kalli fram óvissu hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, sem séu óöruggir um hvernig best sé að beita sér við veiðarnar. Fram kemur að sjómenn séu ekki bjartsýnir á að 400 þúsund tonna loðnukvóti náist allur, þar sem þessar breytingar á göngu loðnunnar og slæmt veður hefur sett strik í reikninginn.

Tæp tuttugu prósent af kvótanum eru þegar komin á land, eða um 70 þúsund tonn. RÚV greinir frá þessu.