Kristján Hjaltason, sem starfar að markaðsmálum hjá Ocean Trawlers Europe, birtir í grein í nýjustu Fiskifréttum athyglisverðan samanburð á sambandinu milli aflamagns og verðmætis í útflutningi á þorski og ýsu.
Frá 2000-2003 féll afli þorsks úr 242.000 í 208.000 tonn en á sama tíma fór verðmæti aflans úr 318 kr/kg í 359 kr/kg. Frá 2011-2013 jókst afli úr 188.000 í 239.000 tonn en þá féll verðið úr 396 í 359 kr/kg. Hliðstæð þróun hefur átt sér stað hvað ýsuna varðar.
„Þetta gefur til kynna að það sé öfugt samband á milli afla og verðmætis, þannig að með meiri afla eru gerð minni verðmæti úr hverju kílói og þegar afli dregst saman, þá fást meiri verðmæti,“ segir Kristján.
Kristján minnir á að á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin verður í Reykjavík næsta fimmtudag og föstudag gefist tækifæri til að fara dýpra ofan í þessi mál og önnur.
Sjá greinina í heild í Fiskifréttum, HÉR