Um síðustu aldamót varð hrun í flestum rækjustofnum við Ísland og frá því þá hefur aðeins sigið meira á ógæfuhliðina í þeim efnum.

„Síðan þá er búið að vera lokað fyrir allar veiðar í innfjarðarrækjunni fyrir Norðurlandi. Það er enn þá verið að veiða úthafsrækju og Snæfellsnesrækju og rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Það eru þessir fjórir stofnar sem er enn þá verið að veiða úr,“ segir Ingibjörg G. Jónsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Reyndar hefur ástandið í Ísafjarðardjúpi verið svo slæmt að Hafrannsóknastofnun hefur gefið út núllráðgjöf í rækjunni þar síðustu tvö ár. „Það er svo mikil ýsugengd í Ísafjarðardjúpi og líka í Arnarfirði,“ segir Ingibjörg. Rækjustofninum virðist þó samt ganga aðeins betur í síðarnefnda firðinum.
Fiskurinn orðinn staðbundnari

„En það er mikið af fiski, bæði þorski og ýsu, inni á þessum fjörðum og báðar tegundirnar eru að éta rækjuna. Það má segja að fiskarnir hafi eiginlega tekið yfir firðina af því að þeir ýta rækjunni inn eftir. Þá er fiskurinn í utanverðum fjörðunum og rækjan er í raun aðeins innst,“ útskýrir Ingibjörg. Innfjarðarrækjan hafi því minna svæði til umráða en hún hafði fyrir aldamótin.
„Í Arnarfirði er rækjan nánast bara inni á Borgarfirði en hún var áður fyrr úti að miðjum firði. Það er það sama í Djúpinu. Hún náði alveg út að Æðey á meðan hún er nánast bara inni í Mjóafirði og Ísafirði núna.“
Fyrir utan þetta segir Ingibjörg fiskinn nú meira staðbundinn en áður. „Fyrir tuttugu árum var hann eiginlega aðeins á haustin en fór svo úr firðinum. Núna er fiskur nánast allt árið á svæðinu. Þannig að aðstæðurnar fyrir rækjuna eru alls ekki svo góðar,“ segir Ingibjörg.
Opnað á Snæfellsnesrækju
Í lok apríl var farið á vegum Hafrannsóknastofnunar í rannsóknarleiðangur á rækjuslóðir við Snæfellsnes. Í kjölfarið var gefin út ráðgjöf og síðan opnað fyrir veiðar. Gátu rækjusjómenn byrjað þær 1. maí. „Fiskveiðiárið er aðeins öðruvísi hjá þeim þarna á Snæfellsnesinu og núna eru veiðarnar að mestu stundaðar á sumrin,“ segir Ingibjörg.
Kvóti hefur verið gefinn út í úthafsrækjunni sem veidd er fyrir norðan land að sögn Ingibjargar. „Við fórum í fyrra að skoða ástandið á úthafsrækjunni og förum því ekki núna því það er bara farið annað hvert ár. Vísitalan þar hefur farið hægt lækkandi frá því árið 2018,“ segir hún. Veiðiráðgjöfin hafi þá verið að dragast saman í samræmi við þessar niðurstöður.
„Kvótinn er nú 4.537 tonn fyrir úthafsrækjuna og 460 tonn í Snæfellsnesrækjunni. Það hefur verið núll ráðgjöf hjá okkur síðustu tvö ár í Ísafjarðardjúpi en hún var 169 tonn í Arnarfirði í fyrra,“ segir Ingibjörg.
Smá rækja í Arnarfirði

Að sögn Ingibjargar er sama rækjutegundin í úthafinu og inni á fjörðum. Samgangurinn sé hins vegar takmarkaður og því sé ráðgjöf gefin út fyrir hvern stofn fyrir sig. Staðbundnir stofnar séu í fjörðunum en úthafsrækjan sé á langstærsta svæðinu fyrir norðan land.
„Það er stærðarmunur á rækjunni á þessum svæðum en hitastig sjávar hefur áhrif á vöxt rækju þannig að vaxtarhraði og stærð þeirra er mismunandi og er rækja í Arnarfirði mun smærri en á öðrum svæðum,“ segir Ingibjörg. Fyrir rækjuveiðimenn snúist munurinn líka um fyrirhöfnina við að ná í rækjuna.
„Þeir geta dregið í tíu til tólf tíma í úthafinu á meðan við höfum fengið tonn á korteri í innfjarðarrækjunni þar sem hún er þéttust,“ segir Ingibjörg.
Við ástandið í sjónum eins og það er núna segir Ingibjörg horfurnar í rækjunni ekki svo góðar. „Á meðan við erum með svona mikið af þorski og ýsu þá á rækjan eiginlega ekki séns,“ segir sjávarvistfræðingurinn einfaldlega. Þessi staða sé ekki einskorðuð við Ísland.
Ekki hrun vegna ofveiði
„Það er alveg þekkt annars staðar í heiminum að um leið og þú færð fiskistofnana upp þá fara hryggleysingjarnir niður. Og öfugt, ef fiskistofnarnir hrynja þá getur rækjan blossað upp, eins og við Grænland til dæmis,“ segir Ingibjörg.
Þannig segir Ingibjörg rækjuna ekki sterka við Ísland. „Enda held ég að það séu ekki mörg skip eftir sem stunda rækjuveiðar,“ bendir hún á.
Ástæðuna fyrir hruninu um aldamótin segir Ingibjörg helst vera fyrrgreindan uppgang fiskistofna frekar en ofveiði.
„Þegar maður horfir á þessa rækjustofna þá er það í raun bara við Snæfellsnes sem sjá má merki um ofveiði. Það er í kringum aldamótin þegar veitt var mjög stíft og það var samsvarandi minnkun í stofninum. En á öllum öðrum svæðum þá er það í rauninni að langmestu leyti út af fiski. Eins og fyrir norðan, þar eru firðirnir bara stútfullir af ýsu,“ segir Ingibjörg G. Jónsdóttir.