Þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) sem haldið var í síðustu viku samþykkti ályktun þar sem lýst er þungum áhyggjum af þróun mönnunarmála í fiskiskipaflotanum. Krefst þingið þess að gerð verði að hálfu hins opinbera úttekt á vinnutilhögun á fiskiskipum þar sem fækkun hefur átt sér stað án neinna gildra forsendna.

Árni Bjarnason forseti FFSÍ sagði að á nýju uppsjávarskipunum hefðu útgerðir ákveðið 8 manna áhöfn á flotvörpuveiðum meðan sjómenn teldu lágmarkið 10 menn.

„,, Ekki er síður fullkomlega óskiljanlegt að ákveðnar útgerðir ísfisktogara hafi fækkað um tvo í áhöfn þegar horft er til þess að skipin eru að fiska helmingi meiri afla en nokkru sinni áður. 4 þúsund tonn með 15 manna áhöfn þótti mjög gott fyrir nokkrum árum. Nú fiska menn 7-8 þúsund tonn á sömu skipum  með 13 manna áhöfn.  Sú dapurlega staðreynd blasir því við okkur um þessar mundir að við erum fjær því en verið hefur í áratugi að uppfylla samningsbundin og lögbundin hvíldarákvæði,“ sagði Árni Bjarnason.

Sjá nánar umfjöllun um þing FFSÍ í nýjustu Fiskifréttum.