Á fyrsta ársfjórðungi fiskveiðiársins er meðalverð á ýsu sem seld var á fiskmörkuðum óbreytt frá sama tíma í fyrra, eða 250 kr./kg. Óverulegar breytingar eru á þorskinum, meðalverð er 322 kr./kg í ár en var 320 kr. sept.-nóv. 2009.
Þessar upplýsingar koma fram á vef Landssambands smábátaeigenda. Í ár hafa verið seld rúm sex þúsund tonn af þorski á mörkuðunum sem er um fimm hundruð tonnum minna en í fyrra. Magnið hefur einnig minnkað í ýsunni eins og gera mátti ráð fyrir í kjölfar minni úthlutunar. Þar er samdrátturinn 14% milli ára, minnkar um 879 tonn og fer niður í 5.289 tonn.
Athygli vekur að á yfirstandandi fiskveiðiári hefur mun meira verið selt af undirmálsýsu á fiskmörkuðunum en í fyrra. Fyrsti ársfjórðungurinn skilaði 626 tonnum sem er 46% aukning frá sama tíma í fyrra. Óverulegur munur er á magni þorsks sem undirmáli milli ára. Hlutfall undirmáls af heildarafla sem seldur hefur verið er nánast það sama í báðum tegundum, 11,8% í ýsunni og 11,9% í þorskinum, segir ennfremur á vef LS.