Einungis mældust um 295 þúsund tonn af kynþroska loðnu í nýlegum leiðangri á Árna Friðrikssyni. Hafrannsóknastofnun leggur því ekki til breytingar á áður útgefinni ráðgjöf um aflamark, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá stofnuninni.

Haustmælingar á loðnustofninum fóru fram í annað sinn á R/S Árna Friðrikssyni dagana 17-29. nóvember 2015 með það að markmiði að mæla stærð veiðistofns loðnu. Farið hafði verið í haustmælingu á loðnustofninum nokkrum vikum fyrr eða 16. september til 4. október en yfirferð þeirrar mælingar hafði verið takmörkuð af rekís og slæmu veðri. Því var haldið aftur til mælinga þann 17. nóvember.

Rannsóknasvæðið var í Grænlandssundi og með landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum og Norðurlandi frá 29°30 V í Grænlandssundi að 17° V austan Kolbeinseyjarhryggjar. Aðstæður til rannsókna voru enn erfiðari en í fyrri mælingunni, en rekís í Grænlandssundi útilokaði mælingu á mikilvægum svæðum auk þess sem vindar og tilheyrandi sjólag torvelduðu og stöðvuðu ítrekað bergmálsmælingu og sýnatöku.

Loðna fannst einkum í Grænlandssundi. Mest var um ókynþroska loðnu í suðvesturhluta rannsóknasvæðisins, en norðar og austar var hún meira blönduð kynþroska loðnu. Kynþroska loðnan fannst í mestu magni við landgrunnsbrúnina út af Vestfjörðum, út af Hala og Kögurgrunni, en þar út af torveldaði rekís frekari rannsókn. Loðnu var hvorki að finna í neinu magni á vestasta sniði leiðangursins í Grænlandssundi né með landgrunnsbrúninni út af Norðurlandi.
Einungis mældust um 295 þúsund tonn af kynþroska loðnu (um 14.4 milljarðar fiska), sem gert er ráð fyrir að hrygni næsta vor, en það er mun minna en mældist í fyrri haustmælingum þegar um 550 þúsund tonn mældust. Í ljósi þessa sem og þess að veður og hafís hamlaði rannsókninni leggur Hafrannsóknastofnun ekki til breytingar á áður útgefinni ráðgjöf um aflamark. Stofnunin mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2016 og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess.