Hörð deila virðist vera í uppsiglingu milli Víetnams og Bandaríkjanna – að þessu sinni út af fiski. Bandarísk stjórnvöld hafa hótað að beita lögum gegn því sem þau segja vera undirboð á víetnömskum sjávarafurðum í Bandaríkjunum.
Víetnamar eru mjög stórir útflytjendur á fiskmeti, ekki síst eldisfiskinum pangasíus, til Bandaríkjanna og Evrópu. Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tilkynnt víetnömskum stjórnvöldum óformlega að þau hyggist grípa til ráðstafana sem leiði til þess að verndartollur á innfluttan pangasius geti numið 4,22 dollurum á kíló, jafnvirði 494 íslenskra króna. Það myndi þýða að verðið á eldisfiskinum meira en tvöfaldaðist á bandarískum markaði.
Víetnamar halda því fram að vaxandi vinsældir pangasíus-fisksins í Bandaríkjunum hafi leitt til þess að samtök fiskeldisbænda þar í landi, sem einnig rækta þessa fisktegund, hafi þrýst á stjórnvöld að grípa til þessara ráðstafana gegn innflutta fiskinum. Víetnamskir útflytjendur segja að bandarísk stjórnvöld hafi ítrekað sett verndartolla á víetnamskan eldisfisk á undanförnum árum en nú sé gengið mun lengra en áður og í þetta sinn sé um hreinan refsitoll að ræða.